Víkverji er gleyminn, en á þó til að vera minnugur. Stundum man hann allt um leið, svo sér hann andlit, sem hann veit að hann þekkir, en er fyrirmunað að setja nafn við andlitið.

Víkverji er gleyminn, en á þó til að vera minnugur. Stundum man hann allt um leið, svo sér hann andlit, sem hann veit að hann þekkir, en er fyrirmunað að setja nafn við andlitið. Þessi brestur virðist einkum koma fram þegar Víkverji þarf að muna nafnið á viðkomandi. Hálftíma síðar laumast nafnið svo upp í vitundina eins og ekkert sé sjálfsagðara, þótt þá séu engin not fyrir það lengur.

Víkverji botnar ekkert í því af hverju heilinn í honum á til að muna hluti þegar hann þarf ekki að muna þá, en muna þá ekki þegar hann þarf að muna þá. Víkverji er ginnkeyptur fyrir spurningaþáttum og stundum getur hann meira að segja svarað einni eða tveimur spurningum á undan þeim, sem sitja fyrir svörum. Oftar er það þó þannig að hann veit svarið... á morgun. Víkverji er því upplagður þátttakandi í spurningaleik þar sem gefinn er drjúgur frestur til að svara, en það yrði sennilega ekki sérlega spennandi efni í þátt.

Víkverji á einnig til að setja lyklana sína á svo augljósan stað að það tekur hann korter að finna þá, að ekki sé talað um gleraugun, þótt hann hafi aldrei lagst svo lágt að týna þeim á nefinu á sér.

Nýlega rakst Víkverji á blaðagrein þar sem sagði að undir þrítugt væri farið að hægja á gagnavinnslu heilans. Það sama ætti við um athyglina og vinnsluminnið. Þá sé sá hluti heilans, sem sér um að leysa úr vandamálum, taka ákvarðanir og hugsa flóknar hugsanir, farinn að skreppa saman. Þó er bót í máli að orðaforði okkar vex með árunum og við eigum auðveldara með að sjá stóra samhengið á milli hlutanna.

Okkur er sem sagt ekki alls varnað, þótt heilinn hrörni með aldrinum og hafi maður ekki fundið svarið við afstæðiskenningunni fyrir þrítugt sé ólíklegt að maður geri það úr því.

Víkverji var að reyna að rifja upp af hverju hann ákvað að skrifa þennan pistil. Honum lá nefnilega eitthvað mikið á hjarta. Það rifjast sjálfsagt upp á morgun.