Mývatn Vinsæll áfangastaður.
Mývatn Vinsæll áfangastaður. — Morgunblaðið/Heiðar
„Það er búið að vera mjög gott sumar hjá okkur, bæði veðurfarslega, umferðarlega og sölulega,“ sagði Pétur Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Reynihlíðar hf.

„Það er búið að vera mjög gott sumar hjá okkur, bæði veðurfarslega, umferðarlega og sölulega,“ sagði Pétur Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Reynihlíðar hf. sem rekur Hótel Reynihlíð, Hótel Reykjahlíð, kaffihúsið Gamlabæinn og veitingahúsið Mylluna á Mývatni.

„Við höfum fengið metfjölda af lausagestum í mat í sumar,“ sagði Pétur. „Það er blússandi gangur í þessu öllu saman. Við höfum verið með fína nýtingu á hótelunum báðum í sumar og raunar alveg síðan í febrúar.“ Aðeins dró úr nýtingunni í apríl en aðrir mánuðir frá því í febrúar hafa verið stærri en áður þekktist. Ekkert svigrúm er til fjölgunar gesta í júlí og ágúst því þá er um 98% nýting á gistirýmum að venju.

Flestir hótelgestirnir eru útlendingar en talsvert af Íslendingum kaupir sér að borða, að sögn Péturs.

Nú er háannatíminn og samkvæmt venju mikið að gera. Pétur sagði erfitt að spá um hvernig framhaldið verður, en horfurnar eru góðar, að hans mati. Í sumar vinna 50 manns við hótelin og veitingastaðina. Það er fjórum fleira en í fyrra. gudni@mbl.is