Netið Óafvitandi skiljum við eftir okkur slóð fótspora í netheimum. Fyrirtæki vinna markvisst að því að greina sporin og selja upplýsingarnar.
Netið Óafvitandi skiljum við eftir okkur slóð fótspora í netheimum. Fyrirtæki vinna markvisst að því að greina sporin og selja upplýsingarnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Árni Grétar Finnsson agf@mbl.is Við getum ekki búist við meira einkalífi á Internetinu en í almenningsgarði fullum af myndavélum. Myndavélarnar eru reknar af netveitum, Internetfyrirtækjum, auglýsendum og ýmsum yfirvöldum.

Sviðsljós

Árni Grétar Finnsson

agf@mbl.is

Við getum ekki búist við meira einkalífi á Internetinu en í almenningsgarði fullum af myndavélum. Myndavélarnar eru reknar af netveitum, Internetfyrirtækjum, auglýsendum og ýmsum yfirvöldum.“ Þetta segir Ýmir Vigfússon, lektor við tölvunarfræðideild HR.

Þegar við opnum netvafrann í tölvum okkar og sláum inn heiti vefsíðu sendum við fjöldann allan af fyrirspurnum yfir netið. Þær eru allar merktar IP-tölu, sem er nokkurs konar heimilisfang okkar í netheimum. „Áður fyrr sagði IP-talan einungis í hvaða landi viðkomandi væri eða til dæmis hvort að hann væri hluti af háskólaneti, en í dag fylgja netsamskiptum mun nákvæmari upplýsingar og það eru til fyrirtæki sem vinna markvisst í því að komast að því hver er hvað og hver er hvar,“ segir Ýmir.

„Þessu má líkja við að senda póstkort á milli landa þar sem núna er rýnt í skriftina til að kanna hver sendi kortið og myndina framan á til að kanna hvaðan það var sent. Þessum upplýsingum er svo safnað saman af þeim aðilum sem handfjatla póstkortið. Á netinu þrífast einmitt mörg fyrirtæki sem hafa lifibrauð sitt af því að kortleggja hver þú ert, hvað þú gerir á netinu og hverju þú hefur áhuga á. Þær upplýsingar eru svo seldar áfram,“ segir Ýmir.

Snowden staðfesti gruninn

Mál uppljóstrarans Edwards Snowden hefur skekið heiminn síðan að hann lak upplýsingum um njósnir ríkisstjórna Bandaríkjanna og Bretlands. „Það sem Snowden hefur uppljóstrað hingað til kom engum í tækniheiminum á óvart, en það var í raun fyrsta staðfestingin á því að njósnað sé svona markvisst,“ segir Ýmir.

Snowden sýndi fram á að ríkisstjórnirnar höfðu aðgang að sérstakri njósnaveitu, PRISM, sem gerði þeim kleift að fylgjast með umfangsmiklum upplýsingum. „Þeir geta auðveldlega komist upp með að skoða hvert og eitt okkar. Ef við tökum Facebook sem dæmi þá sjá þeir hvað hver og einn setur inn á síðuna, hvar hann gerði það og hvenær.“

Gert í þágu þjóðaröryggis

Ýmir segir að helsta spurningin hvað þetta mál varðar sé hvort hlutir sem þessir séu réttlætanlegir í þágu þjóðaröryggis. „Fólk vill ekki láta njósna um sig en ber jafnframt miklar væntingar til yfirvalda, að þau tryggi öryggi þess fyrir óþekktum ógnum. Þarna ríkir ákveðin togstreita þar sem röksemdafærslan er að meiri njósnir þýði fleiri upplýsingar sem þýðir betra öryggi. Ég tel líklegt að ýmsum glæpum og hryðjuverkum hafi verið aftrað með því að fylgjast náið með hinum stafræna heimi, en fórnarkostnaðurinn er bæði stór og óafturkræfur: stafrænt einkalíf okkar,“ segir Ýmir. „Þó Facebook og Google þjónusturnar virki fríar eru þær það auðvitað ekkert. Hið eiginlega gjald fyrir þjónustuna er nánast ótakmarkaður aðgangur að einkalífi okkar og við verðum að gera okkur grein fyrir því. Þriðju aðilar, eins og auglýsendur og aðilar bak við Facebook, leiki og síma-„öpp“ hafa oft svipaðan aðgang. Margir hneykslast á þessu en gera svo ekkert í því, sem hefur verið notað sem rök um að einkalíf okkar sé kannski ekki nógu mikils virði. Þó eru að myndast hreyfingar sem berjast gegn öflum sem þessum.“

VARNIR DUGA SKAMMT

Ekkert einkalíf á netinu

„Það er hæg hreyfing í þá átt að auka einkalíf okkar á netinu en það er margt sem getur minnkað það frekar,“ segir Ýmir.

„Flestar vefsíður nota þjónustur frá þriðja aðila til að mæla vinsældir síðunnar, t.d. er Google Analytics notað af meirihluta vinsælla síða á netinu. Þessir þriðju aðilar skilja eftir sig svonefndar smákökur í vafra notandans sem gera kleift að rekja heimsóknir notandans á aðrar síður sem þessi þriðji aðili þjónustar.“

Ýmir segir að fæstir taki eftir þessu en hægt sé að tæma smákökurnar í vafranum til að draga úr eftirlitinu. „Eins og netið og vafrar eru hannaðir í dag þá er það svo að ef einhver vill virkilega fylgjast með þér á netinu, og hefur völdin til þess, getur hann það vel,“ segir Ýmir.