Frá Stefaníu Jónasdóttur: "Við erum með þingmenn, sem virðast ekki skilja utanríkismál, það sýnir Snowden-málið. Þessir þingmenn vilja veita honum hæli, þrátt fyrir að hann hafi misnotað stöðu sína og síðan er látið eins og njósnir séu eitthvað nýtt."

Við erum með þingmenn, sem virðast ekki skilja utanríkismál, það sýnir Snowden-málið. Þessir þingmenn vilja veita honum hæli, þrátt fyrir að hann hafi misnotað stöðu sína og síðan er látið eins og njósnir séu eitthvað nýtt. Það hefur og mun alltaf verða njósnað hjá öllum þjóðum. Eins og heimurinn er í dag erum við þá öll svo saklaus að engar njósnir þurfi? Og gamlir refir eins og Ögmundur Jónasson og Steingrímur S. taka þátt í þessu, vitandi betur. Er nú kommúnisminn að heltaka þessar kempur, og nú skal sýna USA í tvo heimana. „Litla landið sem þorir“ er haft eftir þingmanni, þvílík firra, ætlar viðkomandi að taka ábyrgð á þessum orðum sínum? Nei auðvitað ekki. Tal Birgittu Jónsdóttur og Pírata í nafni lýðræðis kallast stjórnleysi og getur verið þjóðinni hættulegt. Var málþóf ykkar lýðræði? Nei það var ofbeldi sem átti að nýta í þágu lýðræðis, en sem sagt, lýðræði er tvíbent og getur snúist upp í andhverfu sína. Þetta átt þú að vita, Birgitta, og mér sýnist boltinn rúlla í þá átt, en því miður gleypir stór hluti unga fólksins við þessu lýðræðistali. Það þarf mjög upplýst og viturt fólk til að skilja og fara rétt með lýðræðið, ef það er þá hægt. Þjóðin er ekkert of heppin með stjórnmálamenn og konur. Hvar lærið þið undirferlið, háðið, eineltið og orðfærið sem þið notið? Samfylkingarfólk er þarna sér á báti hvað þessi ósköp varðar. Ingibjörg Sólrún beitti Davíð Oddsson einelti, til þess að koma sjálfri sér að, og áfram heldur Samfylkingin, því nú skal Sigmundur Davíð fá að finna fyrir því. Ég hlustaði á háðið og hrokann sem þið létuð dynja á honum á þingi. Fækkið þingmönnum í 33. Of stór hópur er óhæfur, virðir ekki störf sín og hefur gleymt fyrir hverja þeir vinna. Hvað get ég gert fyrir þjóð mína, en ekki hvað getur þjóðin gert fyrir mig, þessi orð mættu standa stórum stöfum á spjaldi í þingsal. Hættið þessari frekju og yfirgangi. Sparið þjóðinni fé og fækkið sendiherrum úr 15 í 3. Einn fyrir Evrópu, annar í austri og þriðji í vestri. Það er jú tölvuöld. Seljið svo fasteignir erlendis.

Í lokin, ætla Píratar, VG og Samfylking að axla ábyrgð á óbreyttu veiðigjaldi, fari það í gegn og stór hluti sjávarútvegsins hrynur? Auðvitað ekki. Og konur, seta á Alþingi er ekki sveitarstjórnarseta, takið ykkur á og aflið ykkur þekkingar á fjölbreytileika stjórnmálanna. Myndið ykkur skoðanir og komið út úr forræðishyggjunni. Vel meint.

STEFANÍA JÓNASDÓTTIR, Sauðárkróki.

Frá Stefaníu Jónasdóttur

Höf.: Stefaníu Jónasdóttur