Ingólfstorg Það var nóg að gera í ísbúðum borgarinnar í blíðunni í gær.
Ingólfstorg Það var nóg að gera í ísbúðum borgarinnar í blíðunni í gær. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Þetta er örugglega langfjölmennasti dagur sumarsins, mjög mikil stemning og mjög gaman,“ sagði Tinna Einarsdóttir, vaktstjóri hjá Ylströndinni í Nauthólsvík síðdegis í gær.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Þetta er örugglega langfjölmennasti dagur sumarsins, mjög mikil stemning og mjög gaman,“ sagði Tinna Einarsdóttir, vaktstjóri hjá Ylströndinni í Nauthólsvík síðdegis í gær. Hún taldi að gestirnir væru taldir í þúsundum þótt erfitt væri að áætla fjöldann. Ylströndin var opnuð klukkan tíu og fólk var farið að streyma að strax undir hádegið. Opið er til klukkan 19 í sumar og frítt inn til 15. ágúst.

„Fólk getur nýtt sér aðstöðuna og farið í pottinn og gufu,“ sagði Tinna. „Margir koma í sjósund eða koma til að grilla. Við erum með gasgrill og hér er hægt að kaupa kaldar pylsur eða koma með eigin mat á grillið.“

Biðröð hafði verið við ísbúðina á Ingólfstorgi liðlangan daginn í gær, að sögn Svavars Smárasonar, kokks í Hlöllabátum. „Það er búið að vera brjálað í ísbúðinni í dag. Það eru örugglega tuttugu manns fyrir utan, allir stólar setnir og búið að vera svoleiðis síðan í morgun,“ sagði Svavar síðdegis í gær.

„Það hefur verið mjög mikið að gera í dag, sem er náttúrlega æðislegt,“ sagði Viktoría Ósk Vignisdóttir, vaktstjóri á Kaffi París við Austurvöll, síðdegis í gær. Hún sagði að dagurinn hefði verið með þeim betri í sumar.

Hægt er að sitja úti við Kaffi París og fólk nýtir sér það, jafnvel þótt það rigni. Þá eru settar stórar regnhlífar yfir borðin svo fólk sé í skjóli fyrir rigningunni, að sögn Viktoríu Óskar.