Eyþór G. Stefánsson fæddist í Kaupmannahöfn 11. júní 1950. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 8. júlí 2013.

Foreldrar Eyþórs voru Stefán Hólm, vélstjóri, f. 1. sept. 1910, d. 8. febrúar 1959 og Lovísa Guðmundsdóttir, húsmóðir, f. 26 ágúst 1910, d. 18. ágúst 1987. Eyþór var yngstur fimm systkina, þau voru: Elísabet , f. 25.7. 1933, Guðmundur, f. 8.10. 1935, d. 10.10. 1992, Sigurður, f. 1.6. 1939, d. 6.1. 2013 og Stefán Louis, f. 26.5. 1948.

Eyþór kvæntist Guðrúnu Maríönnu Pétursdóttur 31. desember 1971, dóttur Péturs Péturssonar, f. 26. maí 1906, d. 18. júní 1990 og Sigríðar H. Hannesdóttur, f. 2. sept. 1924. Dætur Eyþórs og Guðrúnar eru: 1) Sigríður María Eyþórsdóttir, f. 24. júlí 1972, maki Benedikt Kristbjörnsson, börn: Alexander Hrafnar og Auður Líf. 2) Aníta Bergrós Eyþórsdóttir, f. 4. júlí 1976, maki: Ari Kolbeinsson, börn: Hrafntýr Atli og Margrét Röskva. 3) Elísabet Ásta Eyþórsdóttir, f. 28. júní 1983, maki Gísli Magnús Torfason, dóttir: Eyrún Veronika.

Eyþór ólst upp í Kaupmannahöfn til 6 ára aldurs en þá fluttist fjölskyldan til Íslands. Föður sinn misstu systkinin er hann fórst með togaranum Júlí í febrúar 1959. Móðir þeirra, Lovísa, kynntist Hjálmari Guðjónssyni, þegar Eyþór var á unglingsaldri og hélst samband þeirra til æviloka. Eyþór hóf snemma störf við ýmsa vinnu samhliða námi, en hann hóf nám við Myndlistaskólann í Reykjavík eftir lögbundna skólagöngu og útskrifaðist einnig frá Verslunarskóla Íslands. Samhliða þessu sinnti Eyþór hugðarefnum sínum sem snéru að tónlist og gítarleik. Eyþór kynntist tilvonandi eiginkonu sinni 17 ára og fluttust þau fljótlega til Svíþjóðar til að stunda m.a. verkamannastörf en þar fæddist fyrsta dóttir þeirra. Árið 1972 flytjast þau svo aftur til Íslands þar sem Eyþór sinnti störfum við sjómennsku og verksmiðjuvinnu ásamt tónlistarstörfum, m.a. með hljómsveit Ragnars Bjarnarssonar. Fæðist þeim hjónunum önnur dóttirin á þeim tíma. Árið 1978 hóf Eyþór nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk þar námi 1983 með framhaldsskólakennsluréttindi, og sama ár fæðist þeim þriðja dóttirin. Þetta sama ár þreytir hann inntökupróf í Kunstakademíuna í Osló, hefur nám þar um haustið og útskrifast með MA-gráðu í myndlist fjórum árum síðar, en starfaði með Sumargleðinni á Íslandi á þessum árum samhliða námi og lék með ýmsum hljómsveitum í Noregi. Að námi loknu hefur Eyþór störf við kennslu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og starfaði þar æ síðan. Auk þess tók Eyþór að sér önnur störf, svo sem hönnun og teiknun myndgáta í DV sem voru fastur liður þar um árabil ásamt því að sinna tónlistarstörfum, m.a. með hljómsveitinni Vanir menn. Eyþór vann til Aydin Dogan-verðlauna, sem eru ein virtustu verðlaun á sínu sviði, í tvígang, árin 2001 og 2002 fyrir skopmyndir með pólitískum skilaboðum. Er hann eini Íslendingurinn sem hefur unnið til þessara verðlauna. Árið 2003 stofnaði Eyþór Vogaakademíuna, og hélt þar myndlistarnámskeið þar til hann þurfti að láta af störfum um áramótin.

Útför Eyþórs fór fram í kyrrþey.

Eyþór kenndi við listnámsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti í aldarfjórðung. Með honum er fallinn frá góður og gegn samstarfsmaður. Hann var gæddur fjölhæfum listrænum hæfileikum, afbragðs teiknari, listmálari og hljóðfæraleikari. Meðal annars vakti hann verðskuldaða athygli fyrir hnyttnar myndagátur sem birtust daglega í Dagblaðinu um margra ára skeið. Hann vann einnig til verðlauna fyrir skopmyndateikningar á alþjóðlegum vettvangi.

Eyþór var farsæll kennari og vel liðinn af nemendum og öllu samstarfsfólki sínu. Hann hafði hlýja og góða nærveru, persónulega kímnigáfu og glettnisblik í auga. Eftir að hann veiktist kom í ljós að nemendur hans söknuðu hans og spurðu iðulega eftir honum. Eyþór var atorkusamur maður og hafði mörg járn í eldinum. Hann reisti fjölskyldu sinni myndarlegt hús í Vogum á Vatnsleysuströnd. Þar stofnaði hann sinn eigin myndlistarskóla og rak hann svo lengi sem heilsan leyfði við góðan orðstír. Margir voru í skólanum ár eftir ár. Þess utan var hann vinsæll og vel látinn hljóðfæraleikari.

Engum gat dulist að Eyþór var einstakur fjölskyldumaður og dáði eiginkonu sína og dætur. Þegar málefni fjölskyldunnar bar á góma á vinnustað einkenndist frásögn hans af einstakri hlýju og væntumþykju.

Við vottum fjölskyldu Eyþórs okkar innilegustu samúð vegna ótímabærs fráfalls góðs drengs sem við kveðjum með eftirsjá.

Fyrir hönd samkennara á listnámsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti,

Guðrún Guðmunda Gröndal.