Ágúst Friðjón Jósefsson fæddist í Reykjavík 11. nóvember 1926. Hann andaðist á líknardeildinni í Kópavogi 4. júlí 2013.

Foreldrar hans voru hjónin Jósef Eggertsson sjómaður, f. 17. júní 1901, d. 9. júlí 1976 og Bárðný Jónsdóttir, f. 23. mars 1902, d. 29. júní 1958. Systkini Ágústar eru Esther, Eggert, Gréta sem er látin og Hulda.

Ágúst kvæntist 11. apríl 1948 Elínu Ólafíu Þorvaldsdóttur frá Raufarfelli, A-Eyjafjöllum. Synir þeirra eru Þorvaldur Guðbjörn, kvæntur Anne Ágústsson, þau eiga þrjú börn og þrjú barnabörn, Grétar Eggert, kvæntur Hafdísi Gísladóttur, þau eiga eina dóttur og Bárður Jósef, í sambandi með Sigurveigu Árnýju Hreinsdóttur, þau eiga einn son. Fyrir á Bárður eina dóttur. Einnig átti Ágúst soninn Hall sem kvæntur er Bjarnveigu Pálsdóttur, þau eiga þrjú börn.

Á æskuheimili sínu í Bræðratungu í Laugardal ólst hann upp við ýmis sveitastörf en þegar hann hafði aldur til hóf hann nám í bifvélavirkjun, fékk meistararéttindi árið 1960 og vann alla ævi við störf tengd bílgreininni. Hann vann um árabil hjá Vegagerð ríkisins. Einnig keyrði hann langferðabíla í nokkur ár ásamt leigubílaakstri hjá Hreyfli. Þá starfaði hann hjá Strætisvögnum Reykjavíkur bæði sem bílstjóri og verkstæðisformaður á mótorverkstæðinu. Árið 1963 stofnaði hann Bifreiðaverkstæðið Bjarma sf., Suðurlandsbraut 2 og tók þá við rekstri Ford-verkstæðisins og rak það til ársins 1975. Hann stofnaði bílaleiguna Dag sf. ásamt Grétari syni sínum 1972 og starfræktu þeir hana til 1984. Árið 1973 hófu þeir byggingu iðnaðarhúsnæðis á Funahöfða 1 og ráku þar bæði bílaleigu og bifreiðaverkstæði ásamt því að halda áfram uppbyggingu á húsnæðinu sem alltaf hefur tengst bílgreininni og hafa bílasölur verið þar til húsa um árabil. Ennfremur vann hann einn við iðn sína í Bjarma frá 1987 til 1996. Líf Ágústar snerist mikið um húsbyggingar og byggði hann meðal annars raðhús ásamt fleirum á Laugalæk 25 sem fjölskyldan flutti í 1956. Síðan byggði hann einbýlishúsið í Haðalandi 19 en þangað flutti fjölskyldan 1972 og þar undi hann hag sínum vel.

Útför Ágústar fór fram í kyrrþey 4. júlí 2013.

Elsku pabbi minn, nú ertu kominn í hina löngu hvíld sem við öll eigum eftir. Það er erfitt að tjá sig, hversu góður faðir þú varst við mig. Alltaf til staðar og sýndir mér kærleik og alúð þó þú tjáðir það ekki alltaf í orði. Verklaginn varstu með eindæmum og hafðir alltaf lausnir á hlutunum.

Þitt starf var farsælt, hönd þín hlý

og hógvær göfgi svipnum í.

Þitt orð var heilt, þitt hjarta milt

og hugardjúpið bjart og stillt.

(Jóhannes úr Kötlum)

Elsku pabbi, ég mun alltaf sakna þín og hugsa til þín.

Þinn

Bárður.

Þegar sumarið stóð sem hæst og gróðurinn var í fullum skrúða kvaddi tengdapabbi minn, Ágúst Friðjón, þetta líf og hélt til nýrra heimkynna, þangað sem leið okkar allra liggur að lokum.

Þrjátíu ár eru síðan ég kynntist Ágústi þegar sonur hans, Grétar, kynnti mig fyrir foreldrum sínum, Ágústi og Elínu. Ég man enn hvað ég kveið fyrir að hitta þau, en sá kvíði var óþarfur þar sem mér var afskaplega vel tekið. Þeir feðgar unnu saman í rúma fjóra áratugi og er missir Grétars því mikill enda voru þeir mjög samhentir og samstiga. Nú er þetta samstarf á enda runnið og daglega setningin „ég ætla að sækja pabba og við förum upp í Höfða“ heyrist ekki lengur.

Eftir að Áslaug Elín dóttir okkar fæddist og var farin að tölta um í Haðalandinu sást stundum hvar lítil hendi ríghélt í stóra og sterka puttann hans afa og saman var rölt í rólegheitum inn í búr til að vita hvort þar væri ekki eitthvert góðgæti að finna. Það var ekki farið hraðar yfir en litlir fætur komust. Það var alla tíð gott samband á milli þeirra og er söknuður hennar mikill. Hún fór til náms í Bandaríkjunum sama dag og hann kvaddi þetta líf og var erfitt fyrir hana að fara án þess að geta gengið með honum síðasta spölinn. Það kom alltaf viss glampi í augun á honum þegar hann sá hana sem kannski lýsir hlýjunni sem hann átti til en lét ekki mikið bera á.

Heimilið í Haðalandi ber vott um mikinn myndarskap. Þegar fór að grænka á vorin þá leið Ágústi afskaplega vel að vera við störf í garðinum og má segja að hann hafi varla komið í hús á sumrin. Þegar Ágústar er minnst verður að minnast Elínar líka, því að þar sem sást til annars þeirra mátti búast við að hitt væri ekki mjög langt undan.

Ágúst var afskaplega laghentur og með eindæmum vandvirkur maður og liggja ófá handtökin eftir hann. Hann var myndarlegur á velli, hár og herðabreiður, rólegur í fasi og traustur. Hann var kletturinn sem lítið haggaðist á hverju sem gekk. Hann fór ekki áfram með asa og látum heldur steig hægt og rólega til jarðar því hann taldi að verk ynnust ekki betur með einhverjum hamagangi. Það er ekki hægt að segja að Ágúst hafi verið orðmargur maður en gat þó verið hrókur alls fagnaðar þegar svo bar undir. Hann var ákaflega dulur og bar ekki tilfinningar sínar á torg og kannski vissu fáir í raun hvað inni fyrir bjó. Fráfall Ágústar kom snögglega. Hann greindist með krabbamein í maí og var farinn í byrjun júlí. Eins og hans var von og vísa tók hann veikindum sínum af miklu æðruleysi enda ekki vanur að óskapast yfir hlutunum og þá ekki þeim sem hann réði hvort eð var ekki við.

Söknuðurinn er mikill og þá ekki síst hjá tengdamömmu, en í apríl voru þau búin að ganga lífsveginn saman í 65 ár svo að árin eru orðin mörg og minningarnar margar.

Ég þakka tengdapabba mínum samfylgdina í gegnum árin og bið honum Guðs blessunar. Einnig bið ég Guð að gefa tengdamömmu, sonum og fjölskyldu allri styrk til að takast á við komandi ár.

Far þú í friði

friður Guðs þig blessi

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem)

Hafdís.

Elsku afi minn.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Ég vil þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við höfum átt saman. Þín verður sárt saknað.

Guð blessi minningu þína.

Þín

Áslaug Elín.