Í hlaðinu Hildur Einarsdóttir og Páll Guðmundur Ásgeirsson ásamt yngri syninum framan við Laugarfellsskála.
Í hlaðinu Hildur Einarsdóttir og Páll Guðmundur Ásgeirsson ásamt yngri syninum framan við Laugarfellsskála.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Ægisson sae@sae.is Íslenskir fjallaskálar eru um 400 talsins og af ýmsum toga, sumir fremur hráir en aðrir reisulegustu byggingar.

Sigurður Ægisson

sae@sae.is

Íslenskir fjallaskálar eru um 400 talsins og af ýmsum toga, sumir fremur hráir en aðrir reisulegustu byggingar. Óefað er þó sá í Laugarfelli upp af Fljótsdal á Austurlandi glæsilegastur þeirra allra, enda minnir hann fremur á lítið hótel. Sveitarfélagið lét reisa hann á árunum 2010-2011. Lengi hefur verið gangnamannakofi þarna en sá sem stóð áður en nýi skálinn var reistur var orðinn gamall og lítið notaður og var rifinn þegar hinn nýi var kominn upp.

Núverandi rekstraraðilar í Laugarfelli eru tvö pör, Páll Guðmundur Ásgeirsson og Hildur Einarsdóttir, og Bjarni Magnús Jóhannesson og Sigrún Eva Grétarsdóttir, öll búsett í Fjarðabyggð. Þau hafa lært tæknifræði, hagfræði, ferðamálafræði og félagsráðgjöf ásamt því að hafa fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu. Þau tóku við um áramótin síðustu.

Páll greindi frá tildrögum þess, að þau fjögur ákváðu að gerast staðarhaldarar í Laugarfelli.

„Jú, það kom þannig til, að ég var síðasta sumar að vinna sem landvörður í Snæfellsskála þegar ég tók fyrst eftir Laugarfellsskála og sýndi Hildi konu minni og Bjarna og Sigrúnu staðinn. Skömmu síðar sáum við að reksturinn var að losna og þá náði ég að sannfæra hin um að sækja um hann með mér. Og þetta gerðum við og fengum og höfum verið að reyna eftir fremsta megni að koma þessu á framfæri, enda er staðurinn lítt þekktur meðal fólks. Það voru jafnvel margir hér á Austurlandi sem höfðu ekki heyrt minnst á skálann þegar við tókum við, ótrúlegt en satt.“

Frá Egilsstöðum að Laugarfelli eru um 70 kílómetrar og eru aðeins síðustu tveir kílómetrarnir ómalbikaðir en þeir eru færir öllum tegundum ökutækja að sumri til.

Öll nútímaþægindi

„Í Laugarfellsskála eru öll nútímaþægindi ef sjónvarp er frá talið, enda á slíkt ekki heima í fjallaskála,“ segir Páll. „Heita vatnið er notað til að kynda skálann upp en einnig er rafmagn á staðnum, sem verður að teljast afar sérstakt. Án nokkurs vafa er þetta besta aðstaða sem í boði er á hálendi landsins.“

Og það er hverju orði sannara.

Þarna er gistirými fyrir 38 manns og matsalur sem rúmar 50 manns. Boðið er upp á morgunmat, kvöldmat og léttar veitingar yfir daginn.

Stutt er í fallega náttúru. Laugarfell er rétt norður af Snæfelli, sem er hæsta fjall utan jökla á Íslandi, 1.833 metrar og gjarnan nefnt konungur íslenskra fjalla og Herðubreið þá drottningin. Tiltölulega auðvelt er að ganga á fjallið og eini útbúnaðurinn sem til þarf er almennilegir gönguskór, nesti og góða skapið. Eins eru margir fossar í nágrenni skálans, bæði í Jökulsá og Laugará. Ekki þarf annað en að líta út um gluggann til að sjá einn þeirra. Margir þeirra fengu ekki nafn fyrr en seint á 20. öld, þar sem þeir lágu utan alfaraleiðar. Og ekki má gleyma Vatnajökli, sem blasir þarna við augum, en hann er rétt utan þjóðgarðsins.

„Frá Laugarfelli niður að sveitabænum Egilsstöðum, sem er næsta byggða ból í nágrenni Laugarfells, er að finna um 15 fossa af ýmsum stærðum og gerðum. Á bænum Egilsstöðum er verið að reisa Óbyggðasafn Íslands sem verður tilbúið árið 2014 og við ætlum í samstarfi við hjónin sem standa að því að merkja gönguleið frá Óbyggðasafninu að Laugarfelli. Það er búið að merkja tvær fallegar gönguleiðir við Laugarfell, önnur er sjö kílómetrar en sú styttri sex kílómetrar. Þessi gönguleið gefur fólki tækifæri til að kíkja á Óbyggðasafnið og ganga inn í óbyggðirnar en það er um 16 kílómetra ganga. Einnig á að gera upp gamlan kláf á leiðinni þar sem hægt er að fara yfir Jökulsá í Fljótsdal,“ segir Páll.

Frá Laugarfelli að Kárahnjúkum eru um 25 kílómetrar og margur sem þangað fer til að skoða virkjunina. Og þá skiptir litlu máli hvort viðkomandi er mótfallinn henni eða hlynntur.

Vatnið talið hafa lækningarmátt

Í Laugarfelli er heitt vatn og um 1980 var byggð laug á staðnum. Í framkvæmdunum við Laugarfellsskála 2010-2011 var hún gerð nánast upp frá grunni og rennsli í hana aukið. Jafnframt var hlaðin ný og enn stærri laug þar. Gamlar heimildir eru til um að menn hafi verið að baða sig í Laugarfelli fyrr á öldum en þá var heiti lækurinn stíflaður og menn skelltu sér í bað þegar nægilegt vatn var komið í hann og var stíflan losuð þegar menn voru búnir að baða sig. Talað var um að vatnið hefði lækningarmátt og væri gott gegn kláða.

„Svo er mikið dýralíf í nágrenninu. Á Eyjabökkum er að finna stærstu heimkynni heiðagæsa í heiminum og það er gaman að fylgjast með hópunum fljúga hér yfir. Það eru líka margar aðrar fuglategundir hér, s.s. rjúpur. Eins eru ein helstu heimkynni hreindýra á landinu í kringum Laugarfell og þau sjást stundum á vappi í nágrenni við skálann. Og ekki hefur veðrið hér eystra spillt fyrir undanfarið, um og yfir 20 stig.“

En hvenær er opið?

„Laugarfellsskáli er opinn frá 15. maí og út september en við opnum að vetri til fyrir hópa, sé þess óskað. Svæðið er allt annar heimur að vetri til en að sumri til. Allt er þakið snjó og það er sérstök tilfinning að vaða snjóinn og skella sér í heitu laugarnar þar sem hægt er að virða fyrir sér norðurljósin ef vel viðrar,“ segir Páll að lokum.