Ríkisútvarpið er enn og aftur í umræðunni og núna vegna skorts á hlutleysi.

Ríkisútvarpið er enn og aftur í umræðunni og núna vegna skorts á hlutleysi. Einhverra hluta vegna er það talið sjálfsagt og eðlilegt að fá Hallgrím Helgason, rithöfund og samfylkingarmann, til að vera með reglulega pistla í útvarpi „allra landsmanna“ og gefa honum tækifæri til að tjá skoðanir sínar á málefnum líðandi stundar. Hallgrímur á að sjálfsögðu rétt á því að tjá sig eins og aðrir, en ef Ríkisútvarpið á að vera vettvangur fyrir pólitískan áróður er eðlilegt og sanngjarnt að öll sjónarmið fái aðgang að hljóðnemanum í Efstaleiti. Það virðist hins vegar ekki vera raunin eða það er mín tilfinning að sum sjónarmið virðast eiga betri aðgang að stofnuninni en önnur. Athuganir sem birtar voru á Pressunni fyrir nokkru um hvaða gestir voru oftast fengnir í Silfur Egils og Spegilinn styrkja þessa tilfinningu mína um Ríkisútvarpið. Í ljósi umfjöllunar vegna pistils Hallgríms verður fróðlegt að sjá hvort Ríkisútvarpið ætlar að jafna leikinn eða halda sínu striki og leyfa sumum sjónarmiðum að heyrast oftar og meira en öðrum.

Í sjálfu sér er mér nokkurn veginn sama hvaða stefnu Ríkisútvarpið tekur í sinni dagskrárgerð svo framarlega sem ég hafi val um það hvort ég greiði gjöld til stofnunarinnar eða ekki. Dagskrárgerð Ríkisútvarpsins hefur aldrei heillað mig og ég spyr því eðlilega af hverju ég eigi að greiða fyrir dagskrárefni sem ég hlusta ekki á né horfi á?

Ég kaupi ekki áskrift af Stöð 2 þar sem kostnaðurinn vegur ekki upp á móti dagskrárefninu sem ég myndi hugsanlega gefa mér tíma til að horfa á. Hins vegar kaupi ég áskrift af Stöð 2 Sport í þeim tilgangi einum að horfa á umfjöllun um íslenska knattspyrnu, þannig virkar frjáls markaður. Um Ríkisútvarpið gilda hins vegar einhver allt önnur lögmál á óljósum forsendum um sérstakt hlutverk stofnunarinnar. Það hafa allir heyrt um öryggissjónarmiðin sem þó mætti hæglega bjóða út t.d. til aðila sem hingað til hafa staðið sig betur í að segja fréttir frá eldgosum og jarðskjálftum. Þá leiðist ýmsum menningarvitum ekki að benda á að stofnunin hafi sérstöðu í umfjöllum um ákveðna menningu sem þeir fullyrða að ekki yrði sinnt af öðrum fjölmiðlum ef ekki væri fyrir Ríkisútvarpið. Það er m.ö.o. verið að segja að ekki sé markaður fyrir ákveðna umfjöllun og því þurfi að niðurgreiða hana með skattfé. Það er ekki merkilegur málflutningur enda verið að gefa til kynna að sú menning og afþreying sem flestir velja sé með einhverju móti verri.

Ég furða mig á siðferði þess fólk sem gerir þá kröfu til mín að greiða niður dagskrárefni Ríkisútvarpsins á sama tíma og það lofar sig fyrir að lesa ekki né kaupa Morgunblaðið því þar gætu mögulega leynst sjónarmið sem því hugnast ekki. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að skattgreiðendur ráði hvort þeir greiði í Ríkisútvarpið eða eitthvað annað eins og t.d. til björgunarsveita landsins.

vilhjalmur@mbl.is

Vilhjálmur A. Kjartansson

Höf.: Vilhjálmur A. Kjartansson