Enskt fagn Bakvörðurinn Sam Tillen leyndi ekki ánægju sinni þegar FH vann Ekranas í gærkvöldi.
Enskt fagn Bakvörðurinn Sam Tillen leyndi ekki ánægju sinni þegar FH vann Ekranas í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Kaplakrika Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Maður getur ekki annað en verið þakklátur FH-ingum fyrir það afrek sitt að hafa slegið út litháíska liðið Ekranas í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Í Kaplakrika

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Maður getur ekki annað en verið þakklátur FH-ingum fyrir það afrek sitt að hafa slegið út litháíska liðið Ekranas í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Meistaradeildarinnar sem maður nýtur svo vel að fylgjast með á vetrarkvöldum. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2007 sem íslenskt lið kemst áfram í keppninni en þá var FH einnig á ferðinni. Þetta afrek gerir mikið fyrir íslenskan fótbolta og fullkomnar ákveðna fernu því áður höfðu íslensku liðin þrjú í forkeppni Evrópudeildarinnar öll komist í gegnum eina umferð.

FH er ekki aðeins búið að tryggja sér leiki við Austria Vín í 3. umferðinni, andstæðingi sem auðvitað er mjög erfitt að slá út en þó ekki óhugsandi, heldur fær liðið alla vega eitt einvígi í viðbót. Það einvígi yrði með sigri á Austria umspilsleikir um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, en með tapi umspilsleikir um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Þessi staðreynd gerir það að verkum að Heimir Guðjónsson og hans menn munu þurfa að glíma við afskaplega þétta leikjadagskrá en því fagna þeir vitaskuld.

Ekranas-menn voru afar vonsviknir eftir fyrri leik liðanna, þar sem þeir áttu fjölmörg færi til að skora en hittu fyrir annaðhvort tréverkið eða Róbert Örn Óskarsson markvörð. Pétur Viðarsson skoraði mark sem reyndist gulls ígildi.

Um miðjan fyrri hálfleik í Kaplakrikanum í gær var staðan hins vegar orðin jöfn í einvíginu að nýju eftir að gestirnir fengu vítaspyrnu sem Róbert gat lítið gert við. Þess má til gamans geta að ég fékk tölvupóst frá litháískum stuðningsmanni Ekranas, manni mér ókunnugum, sem skipaði mér að skrifa fallega grein um Róbert eftir fyrri leikinn. Það er full ástæða til enda steig Róbert ekki feilspor í gær, spilaði 180 mínútur gegn Ekranas án þess að fá á sig mark nema úr vítaspyrnu, og hefur heldur betur sannað sig sem verðugur FH-markvörður.

Maðurinn sem orðaður hefur verið við norska úrvalsdeildarfélagið Viking, og ljóst er að fleiri félög fylgjast spennt með, Björn Daníel Sverrisson, kom FH yfir í einvíginu á nýjan leik áður en fyrri hálfleikur var úti. Hann skilaði boltanum í netið eftir skalla Guðmanns Þórissonar sem náði fyrirgjöf Sams Tillen. Þeir þrír áttu góðan leik í gær eins og reyndar velflestir FH-ingar sem áttu örugglega einn sinn albesta leik í sumar. Það er ekki slæmur eiginleiki að geta verið upp á sitt besta þegar mest liggur við. Menn á borð við Atla Guðnason voru í miklu stuði en Atli fór stundum með boltann eins og Lionel Messi þegar hann lék á varnarmenn gestanna, og vel skiljanlegt að þjálfari þeirra skyldi minnast sérstaklega á frammistöðu kennarans eftir leik.

Pétur Viðarsson varð fyrir smávægilegum meiðslum og kom Atli Viðar Björnsson inná í hans stað í upphafi seinni hálfleiks. Heimir Guðjónsson vildi ekki skipta varnarsinnuðum leikmanni inná heldur kaus Dalvíkinginn og það margborgaði sig (talið í hundruðum þúsunda evra). Atli Viðar kom varnarmanni Ekranas af velli með rautt spjald eftir að hafa sloppið einn gegn markverði snemma í seinni hálfleiknum.

Það var þó ekki svo að Litháarnir legðu árar í bát. Þeir reyndu sitt besta til að skora markið sem kæmi þeim áfram og sendu markvörðinn sinn fram þegar þeir fengu aukaspyrnu í uppbótartíma. Róbert handsamaði hins vegar knöttinn og kom honum strax fram svo Atli Viðar gat skorað þrælauðveldlega sitt fimmta Evrópumark.

FH – Ekranas 2:1

Kaplakriki, forkeppni Meistaradeildar Evrópu, 2. umferð, seinni leikur, þriðjudag 23. júlí 2013.

Skilyrði : Brakandi blíða og völlurinn mjög góður.

Skot : FH 13 (7) – Ekranas 7 (4).

Horn : FH 4 – Ekranas 5.

Lið FH : (4-3-3) Mark : Róbert Örn Óskarsson. Vörn : Jón Ragnar Jónsson, Guðmann Þórisson, Brynjar Guðmundsson (Freyr Bjarnason 45.), Sam Tillen. Miðja : Pétur Viðarsson (Atli Viðar Björnsson 46.), Björn Daníel Sverrisson, Emil Pálsson. Sókn : Ólafur Páll Snorrason, Kristján Gauti Emilsson, Atli Guðnason (Ingimundur Níels Óskarsson 88.).

Ekranas : (4-3-3) Mark : Tadas Kauneckas. Vörn : Rytis Pilotas, Edvinas Girdvainis, Óscar Reyes, Vaidas Slavickas. Miðja : Giedrius Tomkevicius, Marko Vucetic, Arsenij Buinickij(Arnas Ribokas 67.). Sókn : Dejan Djenic ((Igors Kozlovs 16. (Vitalijus Kavaliauskas 60.)), Egidijus Varnas, Uchenna Umeh.

Dómari : Ivar Kruzliak – Slóvakíu.

Áhorfendur : Ekki uppgefið.

*FH áfram, 3:1 samanlagt, og mætir Austria Vín.

0:1 Arsenij Buinickij 26 . Skoraði af öryggi úr vítaspyrnu í vinstra hornið á meðan Róbert fór í hina áttina.

1:1 Björn Daníel Sverrisson 38 . Tillen átti sendingu rétt framan við miðlínu alveg inn í teig þar sem Guðmann skallaði beint á Björn Daníel sem skoraði.

2:1 Atli Viðar Björnsson 90 . Fékk þetta gefins. Enginn í markinu þegar hann fékk stungusendingu fram völlinn svo eftirleikurinn var auðveldur.

Gul spjöld:

Tomkevicius (Ekranas) 15 mín. (brot), Ólafur Páll (FH) 20. mín. (brot), Pétur (FH) 26 mín. (brot), Guðmann (FH) 51 mín. (mótmæli), Varnas (Ekranas) 62. mín (brot), Emil (FH) 76. (brot), Tillen (FH), 80. (brot), Björn Daníel (FH) 84. (brot).

Rautt spjald:

Óscar Reyes (Ekranas) 52 mín. (brot).