<strong>Fjölgun ferðamanna</strong> Markaðsátakið Inspired by Iceland hefur hlotið fjölda alþjóðlegra verðlauna undanfarin ár.
Fjölgun ferðamanna Markaðsátakið Inspired by Iceland hefur hlotið fjölda alþjóðlegra verðlauna undanfarin ár. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Kristinn Ingi Jónsson kij@mbl.is Hin mikla fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands undanfarin ár er ekki öll eldgosinu í Eyjafjallajökli vorið 2010 að þakka.

Viðtal

Kristinn Ingi Jónsson

kij@mbl.is

Hin mikla fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands undanfarin ár er ekki öll eldgosinu í Eyjafjallajökli vorið 2010 að þakka. Vissulega fékk eldgosið mikla athygli erlendis en athyglin ein og sér leiddi ekki til aukins ferðamannastraums til landsins. Þetta er álit Jóns Ásbergssonar, framkvæmdastjóra Íslandsstofu. Í samtali við Morgunblaðið segir Jón nauðsynlegt í allri markaðssetningu að fylgja athyglinni eftir með markaðsaðgerðum.

Hafa lært af reynslunni

„Ísland hefur áður vakið athygli, bæði vegna eldgosa og frægra atburða, eins og einvígis Fischers og Spasskys og leiðtogafundar Reagans og Gorbatsjevs, en af því að það var engin markaðsleg eftirfylgni þá gerðist ekki neitt hvað varðaði aukinn ferðmannastraum.“ Bendir Jón á að í markaðsfræði sé til ákveðin hugmyndafræði sem heitir AIDA, það er athygli, áhugi, löngun og kaup. „Það þarf að færa fólkið upp þennan píramída, frá því að athygli er fyrst vakin, þangað til frekari áhugi vaknar, löngun til að eiga vöruna eða kaupa þjónustuna og loks kaupin sjálf. Það tókst meðal annars með þessu ágæta markaðsátaki Inspired by Iceland.“ Inspired by Iceland er samstarfsverkefni sem Íslandsstofa tekur þátt í en blásið var til átaksins til að bregðast við fyrirsjáanlegum samdrætti í kjölfar eldgossins og „til að vekja athygli á því að landið væri opið,“ eins og Jón nefnir.

Að sögn Jóns hefur áherslan breyst en nú miðar markaðsátakið Ísland allt árið að því að efla heilsársferðaþjónustu og er áherslan að miklu leyti lögð á tímann utan háannar. Jón segir að 600 milljónum króna verði varið í átakið, þar af komi 300 milljónir frá ríkinu og 300 milljónir frá fyrirtækjum og fleiri aðilum. „Við munum halda þessu verkefni áfram næsta vetur og er þegar byrjað að vinna að útfærslum á því. Við höfum verið með ákveðið þema í hvert skipti, eitthvað sem vekur athygli og er óvenjulegt, og leggjum upp með eitthvað slíkt næsta haust.“

JÁKVÆÐ ÁHRIF ERLENDRA KVIKMYNDA Á HAGKERFIÐ

Heildaráhrifin ansi mögnuð

Vinsældir Íslands meðal erlendra kvikmyndaframleiðenda hafa aukist ár frá ári. Aðspurður hvort kvikmyndaiðnaðurinn sem slíkur sé orðinn Íslandi mikilvægur segir Jón það svo sannarlega vera. „Í fyrsta lagi er það sú mikla starfsemi og gróska sem er í kringum þennan iðnað. Aðilar eins og framleiðendur Game of Thrones, Oblivion og Walter Mitty hafa komið hingað til lands og það skapar mikla atvinnu og umsvif. Síðan vekur þetta athygli erlendis þegar menn átta sig á því að það sé verið að taka upp á Íslandi. Í þriðja lagi er að fara í gang ferðaþjónusta sem snýr að því að heimsækja þessa tökustaði og fá að sjá hvar ákveðin skot úr þessum myndum voru tekin upp og annað slíkt. Þannig að þegar upp er staðið tel ég að heildaráhrifin af þessu geti verið ansi mögnuð,“ segir Jón.