Upplýsingar Landlæknir og fulltrúar lýtalækna funduðu nú í júlí.
Upplýsingar Landlæknir og fulltrúar lýtalækna funduðu nú í júlí. — Morgunblaðið/Kristinn
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Þórdís Kjartansdóttir, formaður Félags íslenskra lýtalækna, segir það hafa aukist að konur komi í skoðun og láti fylgjast með brjóstapúðum sem í þær hafa verið græddir, eftir að PIP-brjóstapúðamálið komst í hámæli í byrjun árs 2012.

Hún segir lýtalækna ekki hafa merkt að aðsókn í brjóstaaðgerðir hafi minnkað. „Við höfum ekki fundið fyrir því. Það var mikil hræðsla sem fylgdi í kjölfarið [á PIP-málinu] en þegar búið var að hjálpa þessum konum og fólk var orðið betur upplýst eftir þetta, þá er fólk rólegra,“ segir hún.

Lekatíðni PIP-púðanna var óvenjuhá, auk þess sem iðnaðarsílikon hafði verið notað í púðana. Af 354 íslenskum konum með PIP-púða sem mættu í ómskoðun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í fyrra, voru 203 með sprungna púða og greindist sílikon í eitlum hjá 126.

„Þó að venjulegir sílikonpúðar geti vissulega lekið, þá hefur aldrei verið sýnt fram á tengsl við neina sjúkdóma og þar að auki er gelið sem við notum í dag það þétt að það lekur ekkert út,“ segir Þórdís. Lekatíðni púðanna sem notaðir eru í dag sé um eitt prósent.

Í kjölfar PIP-málsins fór landlæknisembættið fram á upplýsingar um starfsemi lýtalækna en í júní síðastliðnum sagði Geir Guðmundsson landlæknir að ákveðinnar tregðu gætti hjá lýtalæknum hvað þetta varðaði. Landlæknisembættið og stjórn Félags íslenskra lýtalækna funduðu um málið í byrjun júlí.

„Landlæknir gerði okkur grein fyrir lögum og reglum sem varða upplýsingaskyldu sérfræðilækna til embættisins,“ segir Þórdís um efni fundarins. Hún segir hann hafa farið vel fram og að lýtalæknar muni fara yfir málið í framhaldinu.