Hlynur Jónsson
Hlynur Jónsson
Eftir Hlyn Jónsson: "Reimari til upprifjunar njóta jafnvel kröfuhafar verndar eignarréttarins, meira að segja þó erlendir séu."

Í öðrum „þætti“ sínum um „ótroðnar slóðir“ kýs Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður, að svara í engu þeim efnisatriðum sem ég fjallaði um í svargrein minni og lutu að meintu stjórnarskrárbroti við setningu svokallaðra Árna Páls laga og viðbrögðum Dróma við því. Lögmanninum taldi ég rétt að hugleiða hvort ekki fælist meiri bíræfni í því að hundsa lögin, eins og hann taldi réttast, en hlíta þeim með fyrirvara líkt og Drómi gerði. Leitt er að Reimar skuli leiða eigin bíræfniskjarna málsins hjá sér.

Fullyrðing Reimars um að Drómi auki rugling

Í því skyni að leiðrétta rangar fullyrðingar í fjölmiðlum birti Drómi athugasemd á heimasíðu sinni 26. júní. Engu að síður kallaði bjöguð umfjöllun á gamalkunnug gífuryrði ásamt sleggjudómum umboðsmanns skuldara og fleiri opinberra aðila. Drómi birti því aðra tilkynningu á heimasíðu sinni sólarhring síðar, til að taka af allan vafa um fyrirætlanir félagsins. Þetta getur hver sem er kynnt sér með því að slá inn: http://www.dromi.isog síðan „Athugasemd frá Dróma hf. 27. júní, 2013“.

Þung hlöss!

Reimar gerir sér mat úr því að ég hafi nefnt að hann væri ekki hlutlaus álitsgjafi. Hann hafi jú að vísu haft hagsmuna að gæta í fyrra, en ekki í ár. Þau falla víst með brambolti þungu hlössin! Reyndar er þessu tiltekna máli ólokið, en undirritaður þekkir auðvitað ekki hvenær Reimar lét af hagsmunagæslu í málinu fyrir sinn umbjóðanda.

Fræ tortryggninnar

Eitthvað virðist málefnafátæktin hrjá lögmanninn. Grípur hann til gamalkunnra ráða í niðurlagi greinar sinnar, yfirgefur málefnin alfarið og freistar þess í stað að sá fræjum tortryggni í garð Dróma og undirritaðs með órökstuddum aðdróttunum. Ekki verður hjá því komist að svara slíkum dylgjum. Í fyrsta lagi spyr Reimar hvaða hagsmuni ég sjálfur hafi af málarekstri Dróma. Þetta er einkennileg spurning af hálfu lögmanns og óljóst hvaða tilgangi hún þjónar öðrum en að gagnast til útúrsnúninga. Aðdróttunum Reimars er auðsvarað. Ég hefi enga aðra hagsmuni en þá að sinna störfum mínum af kostgæfni og trúmennsku og rækja þá skyldu, sem Alþingi mælti fyrir um með 2. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, „að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis, þar á meðal með því að bíða eftir þörfum efndatíma á útistandandi kröfum þess fremur en að koma þeim fyrr í verð...“. Reimar orðar reyndar ekki nákvæmlega hvað hann á við með aðdróttun sinni, en ef ætlun hans er að gefa í skyn að ég hafi fjárhagslega hagsmuni af málarekstri Dróma þá get ég upplýst að svo er ekki.

Eigendur hagsmuna Dróma

Loks spyr lögmaðurinn hverjir séu „endanlegir“ eigendur þeirra hagsmuna sem Drómi gætir. Örðugt er að átta sig á tilgangi spurningarinnar, enda fylgja engar skýringar. Reimar virðist vera að skáka í „hrægammaskjólinu“ og gefa í skyn að sumir kröfuhafar séu réttlausari en aðrir. Reimari til upprifjunar njóta jafnvel kröfuhafar verndar eignarréttarins, meira að segja þó erlendir séu. En þótt spurningin sé ómálefnaleg og umræðunni óviðkomandi þá get ég upplýst Reimar um að eignir Dróma eru allar veðsettar Arion banka til greiðslu þeirra fjármuna sem bankinn tók að sér að ábyrgjast gagnvart innlánseigendum SPRON. Þar að baki stendur ábyrgð skattgreiðenda, nægi eignir Dróma ekki til. Að innlánsskuldinni uppgreiddri renna eftirstöðvarnar til greiðslu almennra krafna í búi SPRON, eins og lögmaðurinn ætti að þekkja. Til að taka af allan vafa gagnvart áskrifendum „hrægammakenningarinnar“, þá hafa undir 5% krafna í SPRON skipt um hendur frá upphafi slitameðferðar. Með öðrum orðum þá eru upprunalegir kröfuhafar, sem lánuðu SPRON fé áður en í óefni fór, enn nánast þeir sömu.

Lengi má lopann teygja, en það er engu að síður von mín að þessari ritröð sé hér með lokið.

Höfundur er stjórnarformaður Dróma hf.