<strong>Rithöfundur</strong> Quentin Bates hefur helgað sig glæpasögum sem hann skrifar ásamt því að starfa sem blaðamaður. Bækurnar hans hafa verið gefnar út m.a. á þýsku og fengið góða dóma bæði í Bretlandi og Þýskalandi.
Rithöfundur Quentin Bates hefur helgað sig glæpasögum sem hann skrifar ásamt því að starfa sem blaðamaður. Bækurnar hans hafa verið gefnar út m.a. á þýsku og fengið góða dóma bæði í Bretlandi og Þýskalandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vihjálmur A. Kjartannson vilhjalmur@mbl.is Breski rithöfundurinn Quentin Bates lauk nýlega við að þýða bókina Pelastikk, eina vinsælustu skáldsögu Guðlaugs Arasonar, á ensku og nefnist hún Bowline á enskri tungu.

Vihjálmur A. Kjartannson

vilhjalmur@mbl.is

Breski rithöfundurinn Quentin Bates lauk nýlega við að þýða bókina Pelastikk, eina vinsælustu skáldsögu Guðlaugs Arasonar, á ensku og nefnist hún Bowline á enskri tungu. Bates hefur sjálfur gefið út nokkrar bækur en hann skrifar glæpasögur ásamt því að starfa sem blaðamaður á Englandi. Hann þekkir vel til Íslands en hann bjó og starfaði á Íslandi í tíu ár og er giftur íslenskri konu. Útgáfa Pelastikk á ensku hefur tekið nokkurn tíma en töluvert er síðan Bates las bókina fyrst og fékk þá hugmynd í kollinn að þýða hana á ensku.

„Þegar ég sat á skólabekk á Íslandi í skipstjórnarnámi var Pelastikk hluti af Íslensku 101 og þannig kynntist ég bókinni fyrst og höfundinum,“ segir Bates, en hann þýddi bókina fyrst og fremst til að vita hvort hann gæti gert það. Í kjölfarið hafði hann samband við Guðlaug um útgáfu á bókinni á Englandi. „ Ég hafði samband við Gulla eftir að ég þýddi bókina og spurði hvort honum væri sama ef ég reyndi að koma þýðingunni í útgáfu og hann tók vel í það, en það gekk því miður ekki neitt þar sem enginn fékkst til að fara í útgáfuna. Það var ekki fyrr en Amazon-útgáfan kom til og það var hægt að gefa bækur út sjálfur að það var loksins hægt að gera eitthvað með þýðinguna en hún kemur út núna sem rafbók.“

Rafbókavæðingin ógnvekjandi

Bates segir það vera mikla byltingu að rithöfundar geti gefið út eigin bækur og sögur með Amazon self-publishing og öðrum leiðum í gegnum netið. „Þetta er búið að breyta öllum gömlu leikreglunum í útgáfubransanum og við eigum eftir að sjá fleiri breytingar á næstu árum enda strax farið að bóla á hörkurithöfundum sem gefa út bækurnar sínar sjálfir á þessu formi.“

Í Bandaríkjunum einum segir Bates að gefnar séu út á aðra milljón rafbóka á ári og upp úr þeirri flóru komi mörg ný nöfn.

„Bækurnar Fifty Shades of Grey hafa notið gífurlegra vinsælda en E.L. James gaf fyrstu söguna út á netinu,“ segir Bates, en í dag hafa selst yfir 70 milljónir eintaka af bókum E.L. James og hafa kvikmyndaverin í Hollywood sýnt sögunum mikinn áhuga.

Spurður um það hvort einhver spennandi rithöfundur sé í sigtinu bendir Bates á að bóndi í Skotlandi að nafni James Oswald eigi eftir að verða stórt nafn í glæpasagnaheiminum. „Oswald hóf sinn feril í gegnum rafbækurnar og vakti töluverða athygli strax. Hann gerði líka allt rétt í upphafi, fékk sér til aðstoðar mann til að ritstýra og halda utan um verkin sín frá upphafi og fékk síðan samning við forlag í kjölfarið.“

Netið blásið lífi í smásögurnar

Smásögur hafa þurft að láta undan í baráttunni um athygli útgáfufyrirtækja í Bretlandi að sögn Bates. „Stórar útgáfur hafa einbeitt sér að stærri verkum sem talið er að muni seljast betur. Smásögur hafa verið á undanhaldi en með tilkomu útgáfu bóka á netinu hafa þær verið að vaxa og dafna á ný.“

Sjálfur segist Bates hafa skrifað smásögu en það er að hans mati bæði skemmtilegt og áhugaverð nálgun. „Ég var rétt svo að hitna upp fyrir skrifin og komast í gírinn þegar ég þurfti allt í einu að fara að huga að því að ljúka sögunni. Það var því hvort tveggja í senn skemmtilegt og krefjandi að skrifa smásögu,“ segir Bates en hann vonar að fleiri höfundar sjái sér fært að takast á við smásagnarformið og gefa út sögunar sínar á netinu. Bates segir þó einn ókost fylgja rafbókunum og það sé verðlagningin á bókum. „Enn sem komið er finnst mér ekki vera nægilega gott samræmi í verðlagningu á bókum. Það er hægt að finna sambærilegar bækur í gjörólíkum verðflokkum. Hugsanlega leysir þó markaðurinn þetta sjálfur og það kemst á eðlilegri verðlagning í framtíðinni.“

Sögusviðið í bókunum er Ísland

Quentin Bates hefur gefið út nokkrar glæpasögur sem allar gerast á Íslandi. Bates hefur því valið sér landið sem sitt sögusvið þó hann viðurkenni að hann taki smá skáldaleyfi og breyti aðstæðum og staðháttum endrum og sinnum. „Ég reyni að endurspegla veruleikann eftir bestu getu en það er ekki alltaf hægt að hafa allt eins nákvæmt og í raunveruleikanum, t.d. verður að þjappa hlutunum saman til að halda söguþræðinum gangandi, annars væri hver saga ákaflega langdregin.Annars reyni ég að vera eins nákvæmur og ég get, en maður kemst ekki hjá því að nota skáldaleyfi hér og þar.“

Tengsl Bates við Ísland eru því bæði sterk í lífi hans og sögum. Hann segir það þó röð tilviljana að hann hafi verið svona lengi á Íslandi eða í tíu ár. „Mér var boðin vinna í nokkra mánuði á Íslandi og líkaði síðan svo vel við vinnuna og sjávarplássið þar sem ég átti heima til að byrja með og var því 10 ár í stað þess að stoppa einn vetur. Annars var ég búinn að lesa margar af Íslendingasögunum sem unglingur og vissi sennilega eitthvað meira um landið en flestir.“

Íslendingasögur ekki glæpasögur

Áhugi Bates á Íslandi hófst eins og hjá mörgum við að lesa Íslendingasögurnar sem ungur maður. „Íslendingasögurnar eru sannarlega eitthvað til að vera stoltur af enda spennandi og skemmtilegar sögur. Ég hef lesið megnið af þeim en ekki sótt mikið í þær. Ólíkt glæpasögunum fer það t.d. aldrei milli mála hver drap hvern og hvernig. Ef eitthvað þá stæra menn sig af því að hafa höggvið mann og annan í Íslendingasögunum og það væri ekki góð glæpasaga,“ segir Bates sem sjálfur segist sækja í evrópska krimmahefð sem inniheldur Georges Simenon, Sjöwall & Wahlöö, Colin Watson, Len Deighton, Josef Skvorecky og fleiri. Þá segir hann einnig að allt sem þurfi til í frábæra glæpasögu sé einnig að finna Gísla sögu Súrssonar og Laxdælu ef útfærslan væri önnur.

Bates hefur haldið úti heimasíðu þar sem hann fjallar meðal annars um eigin verk og áhuga sinn á glæpasögum. Síðan nefnist Gráskeggur en það gæti reynst mörgum erlendum aðdáendum hans erfitt að bera fram og skrifa. Nafnið Gráskeggur er viðurnefni sem Bates fékk frá ömmu konunnar sinnar en hún gat ómögulega borið fram skírnarnafn hans, Quentin. „Íslendingar hafa ekkert Q í sinni málhefð og gamla konan gat ómögulega borið fram nafnið mitt rétt. Ég er hins vegar með gott skegg og fljótlega fór gamla konan að kalla mig Gráskegg. Hún sagði einfaldlega við mig „komdu inn, Gráskeggur minn“ og þar með var viðurnefnið komið og það hefur haldist við mig allar götur síðan.“

Heimasíðan Graskeggur.com er hluti af kynningu Bates á sjálfum sér og verkum sínum en hann segir að rithöfundar í dag komist ekki upp með það að vera ekki með heimasíður, Twitter eða Facebook. Hluti af kynningu höfunda sé að vera sýnilegir á netinu og erfitt sé að ætla sér að selja bækur án þess að vera mjög sýnilegur og minna reglulega á sig. „Höfundar sem eru þegar orðnir þekktir komast kannski upp með það að sleppa þessu en fyrir okkur hina sem enn erum að kynna okkur og bækur okkar er þetta nauðsynlegt.“

Kvartað undan íslenskum nöfnum

Bækur Bates hafa fengið bæði góða og slæma dóma en hann segir fólk helst gera athugasemdir við nöfnin í bókunum. „Fyrsta bókin mín Frozen Out fékk til að byrja með aðeins frábærar viðtökur eða ömurlegar, það var eins og lesendur annaðhvort hötuðu bókina eða elskuðu hana en það hefur jafnast út síðan. Ef fólk kvartar er það helst undan nöfnum í bókinni, sem mér finnst skrítið. Þegar ég les bók sem á að gerast í Japan ætlast ég ekki til þess að persónur í bókinni heiti Jón eða Gunna,“ segir Bates en bækurnar hans hafa einnig verið gefnar út í Þýskalandi og fengið fínar viðtökur þar. „Bækurnar fengu ágætis dóma í Þýskalandi og ég er núna í viðræðum við forlag um að gefa út þriðju bókina mína sem kom út í Bretlandi í apríl.“

Bates segir Þjóðverja ekki kvarta eins undan íslenskum nöfnum og Breta en hann telur helstu ástæðuna vera þá að Þjóðverjar þýði fleiri bækur og lesi fleiri þýddar bækur en Bretar. „Enskumælandi fólk les yfirleitt ekki mikið af þýddum bókum en það er kannski að breytast eitthvað núna. Það er hins vegar ekki tilfellið í Evrópu, þannig að evrópskir lesendur eru kannski ekki eins smeykir við ókunnug nöfn.“