Hymnalaya Þórdís Björt Sigþórsdóttir, Gísli Hrafn Magnússon, Kristofer Rodriguez Svönuson og Einar Kristinn Þorsteinsson.
Hymnalaya Þórdís Björt Sigþórsdóttir, Gísli Hrafn Magnússon, Kristofer Rodriguez Svönuson og Einar Kristinn Þorsteinsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hymnalaya skipa Einar Kristinn Þorsteinsson, Gísli Hrafn Magnússon, Kristofer Rodriguez Svönuson og Þórdís Björt Sigþórsdóttir. Record Records gefur út.

Þessi plata lætur ekki mikið yfir sér, tónlistin lágstemmd og söngurinn raulkenndur. Eins og heiti plötunnar ber með sér er tónlistin sálmakennd, textarnir trúarlegir og skipta miklu máli í flutningnum. Hún hefst og nánast með sálmasöng, skemmtilega rödduðu og hrífandi lagi. Naumhyggjan er allsráðandi í útsetningum, hér er engu ofaukið og ekkert prjál.

Slagverkið í „Riddles“ er smekklegt, strengjaleikur fyrirtak og svo er smekklega skreytt með öðrum hljóðfærum þegar við á. Þetta má heyra í bestu lögum plötunnar, til að mynda „In My Early Years“ með jafnri stígandi og lýkur með hrífandi strengjaleik og skemmtilegri röddun. Álíka hækkun er í „Shapes and Sounds“ þar sem þunginn í laginu helst í hendur við inntak textans. „Everything“ er líka smekklega útsett með snúinni slagverksfléttu og eins er vert að geta um lagið „Svarta“.

Eins vel heppnuð og platan er spilla klaufalegir textarnir fyrir. Inntak þeirra er trúarlegt og einlægnin skín í gegn, en óneitanlega galli hvað málnotkun er óeðlileg. Betur hefði farið á því að syngja á íslensku, eða á máli sem enginn skilur nema söngvarinn og sá sem sungið er til. Að því sögðu þá er þekkileg heiðríkja í textunum og ekki fer á milli mála að sungið er frá hjartanu.

Árni Matthíasson

Höf.: Árni Matthíasson