[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir setti í gær annað Íslandsmet sitt á heimsmeistaramóti fatlaðra í frjálsíþróttum í Frakklandi þegar hún hljóp 100 metra í flokki T37 á 15,70 sekúndum.

M atthildur Ylfa Þorsteinsdóttir setti í gær annað Íslandsmet sitt á heimsmeistaramóti fatlaðra í frjálsíþróttum í Frakklandi þegar hún hljóp 100 metra í flokki T37 á 15,70 sekúndum. Fyrra metið átti Matthildur sjálf, 15,73 sekúndur, en það setti hún í júní 2012. Hún hafnaði þó í 15. og síðasta sæti í greininni á mótinu. Hún hafði áður bætt Íslandsmet sitt í 200 metra hlaupi og á enn eftir að keppa í bæði langstökki og 400 metra hlaupi á HM í Frakklandi.

Ensku meistararnir Manchester United töpuðu í gær í annað sinn í þremur leikjum sínum á undirbúningstímabilinu þegar japanska liðið Yokohama Marinos lagði þá að velli í Japan, 3:2. Japanirnir komust yfir eftir aðeins 30 sekúndur þegar Marquinhos nýtti sér slæm varnarmistök en Jesse Lingard jafnaði fyrir United og sjálfsmark heimamanna færði ensku meisturunum forystuna fyrir hlé, 2:1. Aguiar jafnaði fyrir Yokohama með skalla eftir hornspyrnu og Fujita skoraði sigurmarkið, 3:2.

Tveir leikmenn úr Pepsi-deild karla í knattspyrnu voru í gær úrskurðaðir í eins leiks bann eftir að hafa fengið sitt fjórða gula spjald í síðustu umferð deildarinnar. Þetta eru þeir Halldór Orri Björnsson úr Stjörnunni og Ármann Pétur Ævarsson úr Þór. Halldór Orri missir af leik við Víking í Ólafsvík á sunnudaginn, og Ármann Pétur af leik við FH í Hafnarfirði sama dag.

Fjöldi leikmanna úr 1. deildinni var úrskurðaður í bann. Daniel Osafo-Badu úr BÍ/Bolungarvík fékk þriggja leikja bann eftir að hafa fengið rauða spjaldið í þriðja sinn í sumar gegn Völsungi á laugardag. Illugi Þór Gunnarsson úr Fjölni fékk eins leiks bann vegna gulra spjalda og verður ekki með gegn KA á laugardag. Ivan Dragicevic , leikmaður KA, missir af sama leik. Selfyssingarnir Andrew James Pew og Magnús Ingi Einarsson fengu báðir bann, Pew eins leiks en Magnús Ingi tveggja leikja bann. Halldór Fannar Júlíusson úr Völsungi fékk eins leiks bann vegna brottvísunar í síðasta leik og verður því ekki með í mikilvægum leik við Tindastól á laugardag. Loks fengu Þróttararnir Hlynur Hauksson og Sveinbjörn Jónasson eins leiks bann vegna fjögurra gulra spjalda, og verða því ekki með gegn BÍ/Bolungarvík á sunnudaginn.

A ri Gunnarsson verður aðstoðarþjálfari hjá karlaliði Vals í körfuknattleik á næsta keppnistímabili. Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins. Valur vann sér sæti í úrvalsdeildinni á nýjan leik síðasta vor en þjálfari liðsins er Ágúst Björgvinsson sem þjálfar bæði meistaraflokkslið félagsins. Ari hefur áður aðstoðað Ágúst og gerði það hjá Hamri í Hveragerði á árunum 2007-2009. Ari hefur áður þjálfað kvennalið Hamars, Vals og KR. Hann mun einnig þjálfa elstu iðkendur á unglingastigi hjá Val næsta vetur.