Sigurjón Þórðarson
Sigurjón Þórðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigurjón Þórðarson og Kristján Andra Guðjónsson: "Flest bendir til þess að veiðarnar skipti í raun litlu máli hvað varðar vöxt og viðgang rækjustofnsins..."

Ný ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks lagði upp með að hefja mikla atvinnusókn með því að efla verðmætasköpun í þágu almannahags.

Ekki verður sagt að á þeim vikum sem nýja ríkisstjórnin hefur ráðið ferðinni í Stjórnarráðinu hafi sóknin hafist fyrir alvöru. Að vísu hafa ótal nefndir verið stofnaðar, en fáar ákvarðanir teknar til framfara og sumar hverjar hafa verið augljóslega til tjóns.

Ákvörðunin um að stöðva rækjuveiðar í úthafinu, sem tekin var 26. júní s.l., gengur beinlínis gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar um atvinnusókn og sömuleiðis gegn atvinnufrelsisákvæði 75. gr. Stjórnarskrárinnar, sem segir að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa nema að almannahagsmunir krefjist að þeim séu settar skorður. Með því að stöðva veiðar á sameiginlegri auðlind landsmanna án nokkurs rökstuðnings, er ríkisstjórnin ekki einungis að vanvirða Stjórnarskrána, heldur einnig að vinna gegna atvinnuuppbyggingu í landinu.

Eina röksemdin, sem færð hefur verið fyrir atvinnubanninu, er að rækjuveiðar hafi gengið mjög vel og að veiðin sé komin umfram ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar á árinu.

Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks horfir framhjá því að veiðar á rækju hafa mjög takmörkuð áhrif á stofnstærð hennar og miklu nær sé að setja sveiflur í stofnstærð rækjunnar í samhengi við afrán þorsks og annarra fiska. Engar rækjuveiðar í Skagafirði og Húnaflóa í á annan áratug hafa alls ekki skilað árangri og má ástæðuna rekja til aukinnar fiskgengdar. Sömuleiðis er ekki að sjá að þó svo að rækjuaflinn í úthafinu hafi frá síðustu aldamótum verið samanlagt tugþúsundum tonna minni en það sem Hafró ráðlagði, hafi það haft bein áhrif á stofnstærð rækjunnar að mati Hafró.

Flest bendir til þess að veiðarnar skipti í raun litlu máli hvað varðar vöxt og viðgang rækjustofnsins og að veiðarnar hætti að borga sig þegar stofninn er lítill og er kvótasetning á öllu úthafinu því tilgangslaus og óþörf. Reyndar þarf ekki líffræðing eða skipstjóra til að setja spurningarmerki við þá aðferðafræði sem notuð er við að stjórna rækjuveiðum hér við land, eða hver kvótapotturinn er fyrir hvern fjörð landsins á meðan úthafið allt er haft í einum og sama pottinum!

Stöðvun rækjuveiðanna sviptir hundruð sjómanna og landverkafólk atvinnunni og stórskaðar gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Reynsla síðustu áratuga sýnir að útreikningar Hafró á stærð fiskistofna eru langt frá því að vera áreiðanlegir og hafa beinlínis verið rangir.

Það er því lágmarkskrafa að stjórnvöld rökstyðji slíkar ákvarðanir vel og fari samviskusamlega yfir öll rök sem hníga að því að óhætt sé að auka frelsið til veiða.

Sigurjón er líffræðingur og sveitarstjórnarfulltrúi Frjálslynda flokksins í Skagafirði. Kristján Andri er skipstjóri og bæjarfulltrúi Frjálslynda flokksins Ísafjarðarbæ.