Farinn David Preece er farinn frá Keflavík.
Farinn David Preece er farinn frá Keflavík. — Morgunblaðið/Eggert
Víkingur Ólafsvík hefur leitað til bestu knattspyrnuþjóðar heims fyrir átökin á seinni helmingi Íslandsmótsins í knattspyrnu og eftir félagaskipti gærdagsins er liðið nú alls með fimm spænska leikmenn í sínum herbúðum.

Víkingur Ólafsvík hefur leitað til bestu knattspyrnuþjóðar heims fyrir átökin á seinni helmingi Íslandsmótsins í knattspyrnu og eftir félagaskipti gærdagsins er liðið nú alls með fimm spænska leikmenn í sínum herbúðum. Fjórir hafa bæst við á síðustu dögum og tveir léku sinn fyrsta leik í sigrinum á Fram í fyrrakvöld.

Nýjustu mennirnir eru markvörðurinn Sergio Lloves og framherjinn Juan Manuel Torres, en í sigrinum á Fram í síðustu umferð léku vinstri bakvörður og kantmaður með Víkingum. Miðvörðurinn Kiko Insa er svo fimmti Spánverjinn í röðum liðsins.

Víkingar eru með flesta erlenda leikmenn af liðunum í Pepsi-deildinni eða alls níu nú.

Fleiri lið í fallbaráttunni eru að styrkja sig. Skagamenn hafa fengið til sín skoska kantmanninn Joshua Watt sem kom til liðsins frá skoska úrvalsdeildarliðinu Motherwell en þar hefur hann reyndar ekki spilað. Hann var á láni hjá Airdrie og Raith Rovers á síðasta tímabili og spilaði alls 17 deildarleiki.

Fylkismenn hafa fengið til sín sænska miðjumanninn Emil Berger. Hann er 22 ára og á að baki einn landsleik fyrir U21-landslið Svía. Berger hefur leikið með Örebro og Degerfors og var einnig á mála hjá AIK um skeið.

Erlendir leikmenn í deildinni eru rétt tæplega 50 talsins en 2-3 eru reyndar líklega á förum. Nokkrir hafa þegar horfið á brott eins og til að mynda Steven Lennon, leikmaður Fram, David Preece, markvörður Keflavíkur og þeir Kaspars Ikstens og Jernej Leskovar sem lítið léku með Víkingum. sindris@mbl.is