Súpugerð Sunna Kristín (til hægri) er í sumarfríi sem stendur en hér sést hún við súpugerð ásamt samstarfskonu sinni, Dönu Margréti.
Súpugerð Sunna Kristín (til hægri) er í sumarfríi sem stendur en hér sést hún við súpugerð ásamt samstarfskonu sinni, Dönu Margréti.
Sunna Kristín Hilmarsdóttir, aðstoðarverkefnastjóri frístundaheimilisins Selsins við Melaskóla, hefur eytt síðustu dögum í að elta sólina fyrir norðan en hyggst nú snúa aftur til höfuðborgarinnar í tilefni afmælisdagsins.

Sunna Kristín Hilmarsdóttir, aðstoðarverkefnastjóri frístundaheimilisins Selsins við Melaskóla, hefur eytt síðustu dögum í að elta sólina fyrir norðan en hyggst nú snúa aftur til höfuðborgarinnar í tilefni afmælisdagsins. „Ég er búin að frétta að góða veðrið sé komið til Reykjavíkur svo það er bara eins gott að það standist,“ segir Sunna.

Hún segir veðrið þó ekki vera aðalhvatann fyrir heimferðinni heldur vilji hún gjarnan eyða afmælisdeginum með fjölskyldu og vinum. „Ég er voða lítið búin að plana en ég ætla allavega að fara á Valdísi og fá mér ís. Svo held ég að fari á minn heimavöll, Næsta bar, og ætli ég hói ekki fólki saman þar í nokkra drykki.“

Sunna nýtur þess að vera í sumarfríi á afmælisdaginn en hún var þó ekki alltaf sátt við að vera júlíbarn. „Mér hefur fundist gaman að eiga afmæli í júlí á fullorðinsárum en mér fannst það mjög leiðinlegt sem barn. Þá var svo erfitt að halda upp á afmælið af því að allir voru í fríi með fjölskyldum sínum,“ segir Sunna. „Þegar ég varð eldri varð þetta skemmtilegra því það er bjart úti á sumrin og allir eru glaðir og til í að gera eitthvað skemmtilegt. Í haust stefnir Sunna á meistaranám í suður-amerískum stjórnmálum í Lundúnum. „Ég er aðallega að gera eitthvað sem mér finnst áhugavert og skemmtilegt, hvað ég geri svo við það kemur bara í ljós.“