Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Bátasmiðjan Rafnar ehf.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Bátasmiðjan Rafnar ehf. gæti þurft að bíða í nokkra mánuði til viðbótar áður en Seðlabanki Íslands tekur ákvörðun um það hvort félaginu verði veitt heimild til kaupa á gjaldeyri vegna fyrirhugaðra kaupa á norskri bátasmíðastöð.

Samkvæmt 13. grein e. í lögum um gjaldeyrishöft er meðal annars kveðið á um að óheimilt sé að fjárfesta í verðbréfum í erlendri mynt. Rafnar sótti hins vegar um undanþágu frá lögunum hinn 21. maí en til þessa hefur SÍ ekki tekið ákvörðun. Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Rafnars ehf., að fyrirtækið hafi skilning á því að starfsfólk þurfi að fara eftir settum reglum en jafnframt að dæmið sýndi vel það viðskiptaumhverfi sem íslensk fyrirtæki starfa innan. Viðskiptatækifæri bíði ekki endilega eftir því að Seðlabanki Íslands taki ákvörðun um undanþágur sem slíkar.

Átta vikna bið hið minnsta

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru líkur á því að mál Rafnars ehf. hafi fordæmisgefandi gildi. Pétur Steinn Pétursson hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands vildi ekki tjá sig sérstaklega um mál einstakra aðila en sagði að almennt taki undanþágubeiðnir um átta vikur. Hann bendir þó á að undanþágur fari í sérstakt ferli hjá gjaldeyriseftirliti bankans. Í hverju tilviki sé skoðað hvort eldri fordæmi séu til staðar. Segir hann jafnframt að ef vafi leiki á fordæmisgildi undanþágubeiðni sé gjarnan leitað álits hjá ólíkum einingum bankans til að meta áhrifin á stöðugleika í gengis- og peningamálum. Slíkt krefjist gjarnan frekari gagnaöflunar og taki oft lengri tíma en átta vikur. „Hjá okkur hafa komið beiðnir sem tekið hafa marga mánuði í vinnslu. Jafnvel í 6 mánuði eða lengur. Eðli málsins samkvæmt getur borist á borð okkar undanþága þar sem um mjög háar fjárhæðir er að ræða, sem ógnar stöðugleika, eða þá að undanþágan hefur fordæmisgefandi gildi sem leitt getur til þess að stöðugleika er ógnað,“ segir Pétur.

Fordæmisgefandi mál voru flest skömmu eftir að lög um gjaldeyrishöft voru sett árið 2008 en eðli málsins samkvæmt koma þau sjaldnar á borð Seðlabankans nú. „Stundum berast undanþágubeiðnir sem virðast sambærilegar fyrri fordæmum en eru það svo ekki við nánari skoðun. Því þarf að fara vel yfir svona mál,“ segir Pétur Steinn. Hann segir að sum mál séu flóknari en önnur og taki því lengri tíma. Seðlabankinn horfi þó ekki einvörðungu til þeirra fjárhæða sem um er að ræða.

973 UMSÓKNIR BÁRUST ÁRIÐ 2012

711 umsóknir afgreiddar

Í ársskýrslu SÍ frá árinu 2012 kemur fram að gjaldeyriseftirliti Seðlabankans bárust 973 umsóknir um undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál á árinu. Undanþágudeild lauk afgreiðslu á 711 umsóknum, þar af voru 557 samþykktar, 15 samþykktar að hluta, 39 hafnað og 100 lokið með öðrum hætti, þær afturkallaðar eða lokið með leiðbeiningum. Á árinu 2012 voru 27 mál vegna meintra brota á lögum og reglum um gjaldeyrismál tilkynnt frá eftirlitsdeild til rannsóknardeildar og 9 mál frá undanþágudeild.
Undanþágur
» Gjaldeyriseftirlitið samþykkti 577 undanþágur frá gjaldeyrishöftum á síðasta ári.
» Undanþágur sem hafa fordæmisgefandi gildi geta tekið marga mánuði í meðförum seðlabankans.
» Meðalbið er um átta vikur samkvæmt starfsmanni SÍ.