Niðurskurðarhnífurinn“ er fyrirsögnin á þessari stöku Hjálmars Freysteinssonar á vefnum: Ef til verka vanda á er vissara að menn passi að eggvopn skyldi aldrei ljá óvita né skassi.

Niðurskurðarhnífurinn“ er fyrirsögnin á þessari stöku Hjálmars Freysteinssonar á vefnum:

Ef til verka vanda á

er vissara að menn passi

að eggvopn skyldi aldrei ljá

óvita né skassi.

Karlinn á Laugaveginum hafði séð þessa stöku á Leirnum og lét sér fátt um finnast, þótt þeir svitnuðu hjá Ríkisútvarpinu:

Það er víða þörf á að þrífa

og þarf ekki hvalskurðarhnífa

á þann eyðsluskúf

sem er á Rúv

og nú á að stytta og stífa!

Niðurskurður á útgjöldum ríkissjóðs er ekki nýr af nálinni. Húsmæðraskólinn á Laugalandi fór fram á hækkun á framlögum til viðhalds á fjárlögum fyrir árið 1968 og brást fjárlaganefnd vel við erindinu. Þá orti Gunnar Thoroddsen, sem þá var fjármálaráðherra:

Þó næsta sé hún naum á fé

er nefndin öll á hjólum

ef víst er að fénu varið sé

til viðhalds í húsmæðraskólum

Á Boðnarmiði á fésbók velur Árni Gunnarsson þessa yfirskrift fyrir sína stöku: „Svo er það fjandans skólpið“

Hagvöxt aldrei hindrað fá

hægðir draumabláar.

Skítseiðin úr Ölfusá

enda í djúpum sjávar.

Í Sandvíkur-Skruddu Páls Lýðssonar í Litlu-Sandvík er sagt frá því, að Magnús Torfason, alþingismaður og sýslumaður, hafi oft tapað þræðinum í því, sem hann var að segja. Eitt sinn var hann á sýslufundi og gleymdi hvar hann var kominn í máli sínu. Kallaði hann þá til Eiríks Einarssonar frá Hæli: „Eiríkur, hvað var ég aftur að segja?“ Þá orti Páll skáld á Hjálmsstöðum:

Barst mér andans bláþráður

bara að þessu sinni.

Finndu endann, Eiríkur,

aftur í snældu minni.

Þegar Egill Thorarensen byrjaði starfsemi KA á Eyrarbakka fékk hann uppskipunarbát frá Reykjavík, sem kallaður var Grútur. Bjarni Eggertsson á Tjörn kvað:

Egill laus við sorg og sút,

seigur enn sem forðum,

keypti að sunnan gamlan Grút

sem genginn var úr skorðum.

Upp í slippinn fór hann fyrst

og fann þar efnisvörðinn,

þar sem Torfi af töfralist

tróð í stærstu skörðin

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is