Ólafur Jónsson
Ólafur Jónsson
Eftir Ólaf Jónsson: "Læknir sem kemur á slysstað þarf að hafa hæfni, ekki aðeins sem læknir heldur sem sérfræðingur."
Viðar Magnússon, læknir, yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa, skrifaði nýverið erindi til landlæknis og ráðherra heilbrigðismála. Greinargerð læknisins er skrifuð vegna beiðni til Landlæknisembættisins frá innanríkis- og velferðarráðuneyti 12. júlí sl., þar sem landlækni er falið að skoða „hvort þjónusta þyrlulæknis geti verið veitt af öðrum en læknum, svo sem bráðatæknum“. Hugmynd ráðuneytisins er væntanlega sprottin af þeirri viðleitni nýrrar ríkisstjórnar að spara í útgjöldum ríkisins hvar sem hægt er að koma því við. Grein Viðars er gagnmerk og góður vitnisburður um lækni sem er trúr hugsjónum læknastéttarinnar. Í greinargerð Viðars kemur fram að fyrir nokkrum árum var neyðabílslæknirinn færður inn á gólf bráðadeildarinnar. Hugmyndin var hins vegar að áfram yrði læknir tiltækur til að sinna útköllum utan sjúkrahússins. Viðar getur þess að keypt hafi verið sérstök bifreið og hún hlaðin búnaði. Það var hins vegar ekki lagt í þann kostnað að ráða hæfan bifreiðastjóra. Vegna þessa vandræðagangs varðandi „fjárskort“ til að ráða bifreiðastjórann þá endaði málið þannig að enginn læknir fékkst til að fara út úr húsi vegna skorts á þjálfun og hæfni til að sinna læknisverkum við erfiðar aðstæður. Bifreiðin var seld eins og Viðar segir og möguleikinn til að koma reiðu á þessi mál hvarf úr augsýn. Læknir sem kemur á slysstað þarf að hafa hæfni, ekki aðeins sem læknir heldur sem sérfræðingur, í því að vinna læknisverk við hinar erfiðustu aðstæður. Hann þarf að vera fær um að svæfa út í felti, framkvæma ísetningu brjóstholsskera, aflimanir og mögulega að framkvæma inngrip á borð við neyðarkeisaraskurð og brjóstholsskurð. Störf neyðarlæknis utan sjúkrahúss eru vægast sagt hin erfiðustu sinnar tegundar, aðgerðir framkvæmdar á slysstað eða í sjúkrabifreið á fleygiferð á spítala. Viðar telur það af og frá að leggja niður starf þyrlulæknisins og telur skynsamlegast að þyrlulæknirinn vinni bæði störfin, að vera þyrlulæknir og læknir neyðarbifreiðar. Þá þarf að sjálfsögðu að kaupa fullkomna neyðarbifreið og leggja jafnframt í kostnað við ráðningu á sérþjálfuðum bifreiðastjóra. Ef þessi sparnaðarhugmynd gengur fram er líf borgaranna lagt í umtalsverða hættu. Það er með engum hætti réttlætanlegt að leggja ábyrgð á bráðatækna að fara á vettvang þar sem ætla má að í fjölmörgum tilfellum sé nauðsynlegt að ekki aðeins læknir heldur sérfræðingur í utanhússlækningum vinni þau verk. Viðar bendir á það að hann er sérfræðingur á þessum vettvangi og þekkingu hans má nýta til þess að byggja upp þetta þjónustukerfi, þar sem hægt verður að sinna veikustu sjúklingunum á vettvangi við erfiðar aðstæður. Það er nýlega búið að samþykkja lög á Alþingi um lækkun veiðigjaldsins um nokkra milljarða króna. Til stendur að úthluta starfsmönnum Landsbankans, ríkisbanka, fimm milljarða króna. Sumir fá væntanlega tvær milljónir og aðrir fjórar milljónir fyrir „afrek“ undanfarinna ára í bankaþjónustu. Læknisþjónusta á Íslandi er til fyrirmyndar. Viðar leggur til að snúa þessari þróun við varðandi neyðarþjónustu utan spítala og tryggja störf þyrlulæknisins i framtíðinni svo og störf neyðarlæknis á neyðarbifreið. Einnig að byggja undir þekkingu lækna á bráðameðferð utan spítala. Draumurinn um hátæknisjúkrahús er góðra gjalda verður. Þessi þjónusta sem Viðar ræðir um er þeirrar gerðar að það verður að teljast hreint ámælisvert að viðra hugmyndir um að leggja hana niður. Starfsmenn í ráðuneytum og opinberum stofnunum verða að taka sig taki og láta þá sem eru sérfræðingar á þessum vettvangi ráða ferðinni. Það geta orðið slys af þeirri stærðargráðu að þörf verður á hópi lækna sem hefur þjálfun á þessum vettvangi. Öflugt teymi bráðatækna, bifreiðastjóra, lækna og þyrluflugmanna er ekki aðeins þarft í okkar samfélagi heldur vægast sagt nauðsynlegt. Ísland á að setja sér það markmið að vera fremst allra þjóða á þessum vettvangi. Við erum með vel menntað fólk í heilbrigðiskerfinu, öfluga læknastétt og hjúkrunarfólk. Við erum með þyrluflugmenn sem stöðugt leggja sig í lífshættu í störfum sínum. Sama má segja um bráðatækna á vettvangi og bifeiðastjóra sjúkrabifreiða. Við sýnum þeim þá virðingu að búa þessum opinberu starfsmönnum okkar viðunandi vinnuskilyrði þannig að eftir því verði tekið af öðrum þjóðum. Íslendingar hafa orð á sér fyrir að vera heiðarlegt fólk, vel menntað og gott fólk heim að sækja. Ferðamannafjöldi til Íslands á næstu árum mun mögulega vaxa umtalsvert og fljótlega verða ein milljón manna. Þeir munu einnig njóta þessa faglega umhverfis bráðaþjónustunnar sem Viðar berst fyrir . Bestu þakkir til Viðars fyrir vasklega framgöngu í þessu brýna hagsmunamáli allrar alþýðu m.a. 3.000 bænda og 3.000 sjómanna vítt og breitt um landið. Ráðgjafahópur um framtíð sjúkraflutninga hefur þegar markað stefnuna í þessu máli og gengur í sömu átt og málflutningur Viðars.

Höfundur er uppfinningamaður.