María Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 1. apríl 1922. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 22. júlí 2013.

Útför Maríu fór fram frá Bústaðakirkju 31. júlí 2013.

Frá því að ég man eftir mér hefur setningin „við ætlum að skreppa inn í Melgerði“ vakið upp ánægju í huga mínum. Heimili ömmu og afa var fastur punktur í tilveru minni fram á fullorðinsár. Stundirnar með þeim uppi á lofti að horfa á svart hvíta sjónvarpið með popp og Egils djús eru ógleymanlegar. Bíltúrar í Skorradal og á Þingvelli í gamla Fíatinum, og útilegur með tjaldvagninn í eftirdragi. Ég man ekki eftir því að hún amma mín hafi nokkurn tíma byrst sig við mig, enda leið mér í minningunni alltaf vel í Melgerðinu. Þegar eitthvað bjátaði á í lífinu þá hafði ég ávallt samastað hjá ömmu. Þegar amma flutti svo í Furugerði þá skildi ég enn betur að það var amma Mæja sem var minn fasti punktur. Amma Mæja, amma Bogga, afi Palli og afi Tolli. Allt þetta fólk markaði djúp spor í mína sál og gaf mér ógleymanlegar og fallegar minningar.

Amma mín, þú ert síðust af ykkur fjórum sem kveður. Kveðjustundin sem við áttum síðast er ég hitti þig var mér erfið, en þó er ég svo þakklátur fyrir að hafa fengið að kveðja þig á þann hátt sem ég gerði. Ég elska þig meir en orð fá lýst.

Þorvaldur Tolli.