María Olena Magnúsdóttir fæddist á Eskifirði 31. maí 1923. Hún lést á Hrafnistu 21. júní 2013.

Olena var dóttir hjónanna Guðnýjar Þorbjargar Guðjónsdóttur, f. 4. mars 1899, d. 29. apríl 1977, og Magnúsar Eiríkssonar, f. 3. júní 1898, d. 19. júní 1965. Systkini hennar: Kristín Magnúsdóttir (látin), Guðný Magnea Magnúsdóttir og Guðni Þór Magnússon.

Olena gekk að eiga Jónatan Ágúst Helgason, f. á Húsavík 12. mars 1916, d. 7. janúar 1981. Sonur þeirra er Magnús Jónatansson, f. 5. febrúar 1949. Synir hans eru Ágúst, f. 2. júlí 1971, móðir hans er Inga Rósa Guðjónsdóttir, f. 13. mars 1948, og Magnús Sævar, f. 3. ágúst 1976, móðir hans er Jóna Theódóra Viðarsdóttir, f. 22. júní 1957. Maki Magnúsar er Ágústa Finnbogadóttir, f. 12. ágúst 1963. Synir hennar eru Victor, f. 24. febrúar 1987, Finnbogi Arnar, f. 18. júní 1996, og Alexander, f. 2. mars 2005.

Útför Maríu Olenu fór fram í kyrrþey að hennar ósk 28. júní 2013.

Móðir mín var dugmikil kona sem aldrei féll verk úr hendi og hafði sitt alþýðuvit, sem gagnaðist vel í harðri lífsbaráttunni þar sem kjörin voru oft kröpp og lífið snerist fyrst og fremst um það að hafa í sig og á.

Í mínu uppeldi þá vakti hún yfir öllu sem fram fór á heimilinu og át ekki letinnar brauð. Hennar klæðnaður var kraftur og tign.

Fyrir hvern þann sem hlýtur slíkt uppeldi þá er það dýrmætara en perlur. Alltaf var metnaðurinn en jafnframt hvatningin til staðar, sanngirnin en umfram allt dugnaðurinn.

Ég man að mamma sagði alltaf við mig alveg fram á síðasta dag: „Mundu alltaf, Magnús minn, að heppni og velgengni er ekki til nema hjá þeim duglegu“ og „heppni og velgengni er nokkuð sem maður sækir, hún kemur ekki til lúðulaka“ og við þetta bættist að vera samviskusamur og skyldurækinn

Þetta var rauður þráður í uppeldinu sem ég er þakklátur fyrir og ég var einnig umvafinn kærleika og hlýju. Ég minnist foreldra minna með virðingu og hlýju. Mamma var kannski ekki mikið fyrir að tjá ást sína með orðum eða blíðuhótum. Kærleika sinn sýndi hún fyrst og fremst í verki þar sem hún sinnti sínum nánustu af natni og var til staðar alla tíð, traust og trú

Mamma var verkakona og vann af krafti og með trúmennsku í Hraðfrystihúsinu á Eskifirði í hvorki meira né minna en 43 ár! – og án þess að missa úr mínútu. Hraðfrystihús Eskifjarðar þakkaði henni langt og óeigingjarnt starf með heiðursskjali dagsettu 19. maí 1988.

Hún var kosinn heiðursfélagi í verkafélaginu Árvakri á Eskifirði þar sem henni var þakkað fyrir farsæl störf í þágu verkafólks á Eskifirði.

Mamma var mikil hannyrðakona og handlagin og útsjónarsöm í öllum sínum verkum.

Mamma var alla tíð einstaklega heilsuhraust og dugleg að hreyfa sig með gönguferðum og í sundi.

Hún flutti suður árið 1988 og bjó á neðri hæðinni hjá mér og fjölskyldu minni. Hún var ómetanleg hjálp alla tíð er hugsa þurfti um og líta til barnabarna og hunda.

Hún var mikil íslenskumanneskja og lagði mikið upp úr því að töluð væri vönduð íslenska.

Síðustu árin kom inn í líf hennar Ágústa Finnbogadóttir sem hún tengdist sterkum böndum. Þær náðu einstaklega vel saman og voru miklir mátar. Ágústa umvafði hana kærleika og hlýju sem yljaði mömmu um hjartaræturnar og létti henni lund, einmitt þegar hún þurfti svo mikið á því að halda, þegar ellin sótti að og sporin þyngdust.

Í október síðastliðnum fluttist mamma á Hrafnistu og dvaldi þar við gott atlæti. Á síðasta afmælisdeginum sínum þegar mamma varð níræð veiktist hún hastarlega og svo dró smám saman af henni þar til að hún lést þann 21. júní síðastliðinn.

Mamma er ein af þeim dýrmætu og dugmiklu konum sem við eigum öll svo mikið að þakka. Hún stritaði og vann hörðum höndum til að byggja upp það samfélag sem við lifum í dag. Þau lífsskilyrði sem við teljum sjálfsögð og eðlileg urðu ekki til af sjálfu sér.

Nú þegar ég kveð mömmu þá er efst í huga þakklæti fyrir allt það sem hún var mér og hve gott var að eiga hana að í lífi mínu.

Magnús Jónatansson.

Nú höfum við kvatt frænku okkar, hana Ollu.

Við finnum til sorgar yfir að samvistardögunum er lokið en þökkum samfylgdina bæði á Eskifirði og Reykjavík. En þrátt fyrir sorgina þá munum við að allt fólk vill fá að lifa með reisn, það er misjafn eftir fólki í hverju sú reisn felst. Reisn hennar fólst einfaldlega í því að þurfa aldrei að vera öðrum háð. Það fylgir því ákveðin reisn að hafa alltaf full yfirráð yfir sjálfri sér. Þegar svo er komið að ráðin eru tekin af manni er gott að fá að kveðja.

Hér hvílast þeir, sem þreyttir göngu luku

í þagnar brag.

Ég minnist tveggja handa, er hár mitt struku

einn horfinn dag.

Ó, guðir, þér, sem okkur örlög vefið

svo undarleg.

Það misstu allir allt, sem þeim var gefið,

og einnig ég.

Og ég sem drykklangt drúpi höfði yfir

dauðans ró,

hvort er ég heldur hann, sem eftir lifir,

eða hinn, sem dó?

(Steinn Steinarr)

Fjölskyldunni sendum við samúðarkveðjur,

Guðný Ísleifsdóttir og

Sóley Rut Ísleifsdóttir.