Svavar Stefánsson fæddist að Mýrum í Skriðdal 16. september 1926. Hann lést á Landspítalanum í Kópavogi 2. ágúst 2013.

Útför Svavars fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík 8. ágúst 2013.

Við fráfall vinar míns og skólabróður, Svavars Stefánssonar frá Mýrum í Skriðdal, leitar hugurinn allt til sumarsins á því herrans ári 1944. Svavar dvaldi um sumarið á staðnum hjá bróður sínum, Þórarni smíðakennara og verkstjóra, og vann þar í byggingarvinnu til að afla sér fjár fyrir væntanlegu skólagjaldi næsta vetur. Nú er frá því að segja, sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi, að undirritaður sótti um skólavist í maí þetta ár, en fékk fljótlega þau svör frá Bjarna skólastjóra, að fullskipað væri í skólann næsta vetur. En nú hófst Svavars þáttur Stefánssonar. Hann hafði heyrt mig leika á harmonikku á böllum fyrir austan, og með einhverjum hætti hefur hann frétt af umsókn minni. Svavar – alltaf snöggur, brá sér þá á fund skólastjóra og sagði eitthvað á þá leið, að það borgaði sig að láta þennan strák að austan fá pláss, hann gæti spilað á skólaböllunum næsta vetur! Bjarni skólastjóri var hagsýnn, plássið fannst og mér var borgið. Þannig varð Svavar örlagavaldur í mínu lífi.

Tilviljun – eða eitthvað annað? Eftir neitunina um skólavist var ég staðráðinn í að stunda sjóinn áfram með stefnu á Stýrimannaskólann. Við Svavar deildum svo saman herbergi um veturinn og betri félaga gat ég ekki kosið mér. Svavar var maður þægilegur í öllum samskiptum, glettinn og gamansamur, í rauninni hvers manns hugljúfi. Fjölskyldunni sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Guðmundur Magnússon