Íranski byltingarvörðurinn hyggst byrja að kenna framhaldsskólanemum hvernig eigi að stoppa ómannaðar, fjarstýrðar herflugvélar, svonefnda dreka, í haust. Íranska umbótasinnaða dagblaðið Etemad greindi frá þessu í gær.

Íranski byltingarvörðurinn hyggst byrja að kenna framhaldsskólanemum hvernig eigi að stoppa ómannaðar, fjarstýrðar herflugvélar, svonefnda dreka, í haust. Íranska umbótasinnaða dagblaðið Etemad greindi frá þessu í gær.

Í blaðinu var haft eftir Ali Fazli herforingja að kennslan yrði hluti af námskeiði í „varnarviðbúnaði“ í framhaldsskólunum. Hann útskýrði ekki í þaula í hverju slík kennsla fælist en ætla má að nemendum verði kennt hvernig eigi að fylgjast með og taka niður dreka með því að hakka sig inn í tölvukerfi þeirra.

Harðlínumenn í Íran hafa lengi reynt að skipa hernum stærri sess í menntakerfi landsins. Nemendur á bæði efri og neðri stigum framhaldsskóla taka nú þegar námskeið sem fjalla um „borgaralegar varnir“.

Íranar náðu bandarískum dreka af gerðinni RQ-170 Sentinel árið 2011 sem hafði flogið inn fyrir íranska lofthelgi. Yfirvöld þar segjast hafa náð nokkrum öðrum slíkum loftförum síðan þá.