Margrét Jónsdóttir skáldkona fæddist að Árbæ í Holtum í Rangárvallasýslu 20.8. 1893. Foreldrar hennar voru Jón Gunnlaugur Sigurðsson, sýsluskrifari í Rangárvallasýslu og oddviti að Hólmgörðum, og Sólveig Jónsdóttir, bústýra í Árbæ í Holtum.

Margrét Jónsdóttir skáldkona fæddist að Árbæ í Holtum í Rangárvallasýslu 20.8. 1893. Foreldrar hennar voru Jón Gunnlaugur Sigurðsson, sýsluskrifari í Rangárvallasýslu og oddviti að Hólmgörðum, og Sólveig Jónsdóttir, bústýra í Árbæ í Holtum. Í föðurætt var Margrét náskyld Stephani G. Stephanssyni skáldi, en móðurforeldrar hennar voru Jón Jónsson, b. í Krossavík og k.h., Margrét Björnsdóttir húsfreyja.

Margrét ólst upp með móður sinni á ýmsum bæjum í Rangárvalla- og Árnessýslu, en tólf ára var hún barnapía á heimili Einars Benediktssonar skálds.

Margrét stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík í tvö ár, lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1926 og stundaði framhaldsnám í Danmörku og Svíþjóð. Hún var heimiliskennari í Gullbringusýslu og Borgarfirði 1912-18, verslunarstúlka í Reykjavík 1918-23 og kennari á árunum 1926-44. Eftir það var hún gæslukona í Þjóðminjasafni Íslands í sjö ár.

Þegar Margrét var orðin 66 ára festi hún ráð sitt og giftist Magnúsi Péturssyni kennara sem hafði verið vinur hennar til margra ára.

Fyrsta kvæði Margrétar sem birtist á prenti kom í tímaritinu 19. júní árið 1920. Hún sendi frá sér sex ljóðabækur, fimm smásagnasöfn, sex barnabækur um Toddu og Geira glókoll og þrjú leikrit. Þá þýddi hún nokkrar bækur. Hún var auk þess ritstjóri barnablaðsins Æskunnar í 14 ár.

Í dag er Margrét ekki síst kunn fyrir ættjarðarljóðið Ísland er land þitt. Það birtist fyrst á annarri síðu Morgunblaðsins á tíu ára afmæli lýðveldisins, 17. júní 1954, og virðist hafa verið ort af því tilefni.

Ljóðið varð hins vegar á allra vörum eftir að Magnús Þór Sigmundsson samdi gullfallegt lag við það sem er að finna á plötunni Draumur aldamótabarnsins, útg. 1982 og flutt af Magnúsi og Pálma Gunnarssyni.

Margrét lést 9.12. 1971.