Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson Hjörtur J. Guðmundsson Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mun að líkindum svara Árna Páli Árnasyni í dag vegna fyrirspurnar formanns Samfylkingar um stöðu aðildarviðræðna við ESB.

Baldur Arnarson

Hjörtur J. Guðmundsson

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mun að líkindum svara Árna Páli Árnasyni í dag vegna fyrirspurnar formanns Samfylkingar um stöðu aðildarviðræðna við ESB. Vildi ráðherrann að öðru leyti ekki ræða málið í gærkvöldi.

„Okkur barst bréf frá Árna Páli fyrr í dag [í gær] þar sem hann spyr um stöðu aðildarumsóknar og samningaviðræðna Íslands við Evrópusambandið. Það er eðlilegt að formaður Samfylkingarinnar, sem hefur ávallt stefnt að því að koma Íslendingum í ESB, hafi spurningar í kjölfar stöðvunar aðildarviðræðnanna og þykir mér sjálfsagt að svara þeim. Ég mun að öllum líkindum ná að svara honum skriflega á morgun,“ sagði í skriflegu svari ráðherrans.

Í áðurnefndu bréfi skrifar Árni Páll að hann telji í framhaldi af ummælum utanríkisráðherra um stöðu aðildarumsóknar og samningaviðræðna Íslands við ESB „óhjákvæmilegt að kalla eftir skýrum svörum“ varðandi nokkur atriði.

Ekki rætt af ríkisstjórninni

Var tilefnið meðal annars þau ummæli Gunnars Braga í samtali við Rás 2 í gær að ákvörðun um að draga umsóknina til baka hefði ekki verið rædd í ríkisstjórninni. Þá ítrekaði ráðherrann að ekki yrði af þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður að hans frumkvæði.

Spyr formaður Samfylkingarinnar þar m.a. hvort aðildarumsóknin hafi verið afturkölluð eða henni frestað að þjóðréttarlega gildum hætti, samanber fordæmi Sviss og Möltu. Hvort skilningur ESB á stöðu Íslands samræmist yfirlýstum skilningi utanríkisráðherra á stöðu Íslands sem „fyrrverandi umsóknarríkis“ og hvort íslenskir ráðherrar sjálfir eða embættismenn í þeirra umboði hafi tjáð ESB formlega eða óformlega þá ákvörðun Íslands að hætta aðildarferli. Sé svarið við síðustu spurningunni jákvætt telur Árni Páll að því þurfi að svara hvaða íslenskt stjórnvald ákvað að draga umsókn Íslands um aðild til baka.

Þá spyr Árni Páll m.a. hvort Gunnar Bragi telji ekki að aðildarviðræður við ESB séu mikilvægt stjórnarmálefni í skilningi 17. greinar stjórnarskrár, en hún kveður á um að „ráðherrafundi skuli halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni“.

Framhaldið ekki ákveðið

Birgir Ármannsson, þingmaður og formaður utanríkismálanefndar, segir að „báðir ríkisstjórnarflokkarnir tóku þannig til orða í landsfundarályktunum sínum að aðildarviðræðunum skyldi hætt og að þeim yrði ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu“. Í þessu fælist að viðræðunum við ESB hefði verið hætt en ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins hefði ekki verið tekin. Það lægi fyrir að bæði pólitískum og tæknilegum aðildarviðræðum við ESB hefði verið hætt.