Ómar G. Jónsson
Ómar G. Jónsson
Eftir Ómar G. Jónsson: "Svæðið hefur svo margbrotna sögu að geyma, sögu og heimildir sem ekki mega falla í gleymsku fyrir komandi kynslóðir."

Margir fagna því að augu manna eru að opnast fyrir því hversu mikilvægt það er að byggð haldist sem víðast í landinu og þar á meðal Þingvallasvæðinu sem ég kalla svæðið umhverfis Þingvallavatn, Sog og nágrenni.

Svæði sem þessi verða snauð án mannlífs og athafna, þættir sem ferðamenn og fleiri sækjast eftir að upplifa þegar farið er um slík svæði, samanber og við Mývatn.

Einnig hefur vaknað áhugi að endurbyggja sögufrægar byggingar og vernda gamlar heimildir/minjar á svæðinu og víðar á Suðurlandi.

Þar má t.d. nefna áhuga á að byggja hina stæðilegu miðaldakirkju í Skálholti.

Ég hefði vilja sjá uppbyggingu á biskupssetrinu í heild til forna til söguvörslu um hina fornu byggð sem þar var.

Byggingarnar þurfa þá að vera á hentugum stað nokkuð fjærri núverandi byggingum.

Í byggingunum síðan hafðar uppábúnar gínur í klæðum staðarfólks fyrrum, þ.e. svipað og gert er í sögusafninu í Perlunni, sem og tæki og tól frá fornu fari.

Síðan færu leikarar í hlutverk biskupa og staðarfólks þar inn á milli með hesta og annan búnað.

Einnig hefur vaknað áhugi að byggð verði upp þingbúð á Þingvöllum með þeim búnaði sem þinghöfðingjar höfðu til afnota við þinghaldið.

Sami háttur hafður á og í Skálholti varðandi umgjörð og kynningu.

Slíka staði myndi fjöldi ferðamanna sækja vegna söguáhuga hér á landi sem erlendis og greiða að aðgangseyri með glöðu geði og skapa með því fjölda starfa t.d. fyrir fólk á viðkomandi svæðunum.

Ef brúin yfir Öxará verður endurbyggð, þá hef ég lagt til að gegnsætt gler verði haft í brúargólfinu, að hluta t.d. 40-50 cm. breitt, hert gler þvert yfir brúargólfið á fjórum til fimm stöðum

Með því myndi fólk sem fer yfir brúna ná meiri tengingu við iðandi tærvatnið í ánni á þessum sögufræga og magnþrungna stað.

Brúarstólparnir síðan klæddir hraunskífum og múrað á milli og handrið haft úr stáli og tré.

Mér fannst það ansi áhugavert á síðustu Þingvallahátíð þegar gengið var eftir Almannagjá að heyra lágværa tóna frá fornu fari líða frá hamrabeltinu dulúðuga, hreint sagt seiðmagnað í kvöldkyrrðinni.

Hugsanlega má gera slíkt oftar?

Snyrtilegt burstalaga hótel á heima á Þingvöllum, t.d. á gamla Valhallarreitnum eða á völlunum fyrir neðan Öxarárfoss, þar sem fólk getur fengið sér kaffi og léttar veitingar sem og aðstaða til að taka á móti þjóðhöfðingjum og halda vissa fundi á vegum Alþingis.

Við sjáum t.d. hversu Þingvallabærinn nýtur sín vel og Þingvallakirkja, sér í lagi eftir að lagfæring fór fram á görðunum umhverfis staðinn og svæðið upplýst með afar snyrtilegum hætti.

Bent hefur verið á að áhugavert væri að koma upp sögusetri á hentugum stað við Þingvallavatn.

Þar verði saga svæðisins kynnt í máli og myndum þ.e. af lífsbaráttu og hefðum fólks þar um aldir, saga ísaldarurriðans sem svamlaði ægistór og kröftugur um bládýpi Þingvallavatns og Sogslaxins ægivaxna og ýmislegt fleira.

Svæðið hefur svo margbrotna sögu að geyma, sögu og heimildir sem ekki mega falla í gleymsku fyrir komandi kynslóðir.

Á svæðið sóttu t.d. Skálholtsbiskupar matarforða sinn að hluta með veiði á murtu og urriða, þótt veiðarfærin væru ekki stórtæk úr vefstól biskups.

Fróðleg saga sem vert er að koma til kynningar á ný, t.d. í nefndu setri.

Sem betur fer hafa verið teknar saman nokkrar heimildir/bækur um svæðið og er ein slík væntanleg á árinu um Grafning og Sogsvirkjanir.

Nú er svo komið að fólk sem fer um svæðið umhverfis Þingvallavatn, Úlfljótsvatn og Sog veit ekki að víða á svæðinu var nokkuð fjölmennt samfélag fólks og býla.

Verði ekkert úr nefndu sögusetri, og hvort sem er, þá er nauðsynlegt að þessir staðir verði merktir sem og aðrir þekktir staðir/minjar á svæðinu með myndum og kynningu í stuttu máli.

Það sama þarf að gera í auknum mæli í þjóðgarðinum á Þingvöllum t.d. varðandi gömlu býlin í hrauninu og víðar. Þjóðgarðsnefnd tók vel í þá ábendingu 2011.

Í dag hef ég verulegar áhyggjur af silfurbjarta og sérstæða urriðastofninum í Þingvallavatni vegna aðstæðna á hrygningarsvæði hans.

Um þann þátt mun ég skrifa nánar síðar. Í ofanílag er stunduð rányrkja nær allt árið á hrygningarurriða víða í vatninu. Veiðimennska sem ekki á að þekkjast þarna.

Hreint út sagt döpur saga eftir langa baráttu okkar áhugamanna/bænda og góðra styrktaraðila allt frá 1973, að byggja upp urriðastofninn í vatninu á ný.

Ég heyrði fyrir nokkru áherslu að rétt væri að friða mink og ref á Þingvallasvæðinu. Þeir sem til þekkja vita hversu minkurinn getur verið mikill skaðvaldur gagnvart öllu fuglalífi og er refurinn enginn eftirbátur í þeim efnum. Sennilega hefur minkurinn verið meiri skaðvaldur en menn héldu í að laska Öxarárstofn urriðans sem og í öðrum ám við vatnið.

Fjölskrúðugt fuglalíf viljum við halda í á Þingvallasvæðinu sem víðar og að uppbygging á urriðastofninum verði ekki raskað á ný sem og byggð ekki meira en orðið er á svæðinu, frekar efld með snyrtilegum býlum.

Slíkt mun gefa svæðinu aukið gildi og betri ásýnd þótt hefðbundinn búskapur eflist þar vart á ný nema með vissum hliðargreinum sem henta svæðinu.

Höfundur er fulltrúi og áhugamaður um Þingvallasvæðið og nærsveitir.

Höf.: Ómar G. Jónsson