Verðhækkun Farsímaþjónusta er dýrari.
Verðhækkun Farsímaþjónusta er dýrari. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Sunna Sæmundsdóttir sunnasaem@mbl.is Farsímaþjónusta hefur hækkað samfellt frá því í lok árs 2011 og er nú um 23% dýrari en fyrir tveimur árum, þar af nemur hækkunin það sem af er þessu ári ríflega 10% samkvæmt verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ.

Sunna Sæmundsdóttir

sunnasaem@mbl.is

Farsímaþjónusta hefur hækkað samfellt frá því í lok árs 2011 og er nú um 23% dýrari en fyrir tveimur árum, þar af nemur hækkunin það sem af er þessu ári ríflega 10% samkvæmt verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ. Netþjónusta hefur einnig hækkað í verði og er nú tæplega 16% dýrari en í júlí 2011. Heimilissímaþjónusta hefur hækkað um tæplega 8% á sama tímabili.

Í tilkynningu verðlagseftirlitsins gagnrýnir ASÍ fjarskiptafyrirtækin fyrir að hafa ekki sýnt aðhald í verðlagsmálum líkt og sammælst var um við endurskoðun kjarasamninga í upphafi árs.

Hrannar Pétursson, fjölmiðlafulltrúi Vodafone, segir gagnrýni ASÍ byggjast á misskilningi, þar sem tölurnar séu byggðar á tölum frá Hagstofunni, sem skoði ekki raunverulegan kostnað fólks af farsímanotkun og taki þannig ekki mið af ódýrari áskriftarleiðum. Hann segir að einungis sé horft á mínútuverð fyrir hefðbundna farsímanotkun og fáir viðskiptavinir velji slíka áskriftarleið. Hann segir hækkun á mínútuverði skýrast af hækkun á ýmsum rekstrarkostnaði og hagræðingu til þess að tryggja ódýrari áskriftarleiðir. Þá segir hann hækkanir á internetþjónustu helst skýrast af verðhækkun á gagnaflutningum til og frá landinu. Önnur fjarskiptafyrirtæki taka undir gagnrýni Hrannars og segir Liv Bergþórsdóttir, upplýsingafulltrúi Nova, að ASÍ þurfi að taka tillit til breyttrar notkunar farsímans og segir meðalreikning viðskiptavina Nova ekki hafa hækkað sem þessu nemi.

Ef hins vegar er litið einungis til hækkunar á mínútugjaldi hjá fjarskiptafyrirtækjunum, líkt og verðlagskönnunin gerir ráð fyrir, má sjá að mínútugjaldið hjá fyrirtækinu Hringdu er það eina sem ekki hefur hækkað í verði á umræddu tímabili.