Öflugur Knattspyrnumaðurinn Elfar Árni Aðalsteinsson er einn af markahæstu leikmönnum Breiðabliks í Pepsideildinni í sumar með fjögur mörk.
Öflugur Knattspyrnumaðurinn Elfar Árni Aðalsteinsson er einn af markahæstu leikmönnum Breiðabliks í Pepsideildinni í sumar með fjögur mörk. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Elfar Árni nokkuð brattur eftir rothöggið gegn KR • Rankaði við sér eftir nokkra klukkutíma umvafinn sínum nánustu • Þakklátur sjúkraþjálfara og Bjarna Guðjóns • Hjartahnoðið góð ákvörðun • Stefnir á að spila fótbolta að nýju sem fyrst

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Líðanin er bara eftir atvikum góð. Ég er búinn að vera nokkuð góður í dag [í gær], hef fundið fyrir smáógleði en annars verið brattur. Maður er auðvitað aðeins eftir sig, svona eins og maður sé búinn að vera veikur, en líður bara nokkuð vel,“ sagði Blikinn Elfar Árni Aðalsteinsson við Morgunblaðið um kvöldmatarleytið í gær.

Elfar Árni rotaðist illa í leik gegn KR í Pepsideildinni í fyrrakvöld og var talinn í lífshættu. Leikurinn var í kjölfarið flautaður af og hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Myndirnar hér til hliðar sýna vel höggið sem hann fékk í baráttu við Grétar Sigfinn Sigurðarson um boltann.

„Ég man vel eftir upphafsmínútunum og báðum færunum sem voru komin í leikinn. Svo man ég bara eftir því að Gulli [Gunnleifur Gunnleifsson markvörður] sparkaði boltanum fram og ég ætlaði upp í boltann eins og ég er vanur. Síðan slökknaði bara á mér og ég man ekki meira þar til ég rankaði við mér nokkrum klukkutímum síðar uppi á sjúkrahúsi. Þar náði ég svona jafnt og þétt áttum,“ sagði Elfar sem var umvafinn sínum nánustu þegar hann rankaði við sér.

Eins og ég væri ekki ég sjálfur

„Fyrst talaði ég bara eins og ég væri ekki ég sjálfur. Þegar ég vaknaði var gott fólk í kringum mig þarna; móðir mín, kærasta og systkini. Svo kíktu nokkrir liðsfélagar og Aron vinur minn, og það var auðvitað mjög notalegt að sjá þau öll. Það tók smástund að melta þetta allt en svo var ég smám saman farinn að geta rifjað þetta upp,“ sagði Elfar. Hann er þakklátur öllum þeim sem hjálpuðu honum að jafna sig af högginu. Fyrstu fregnir hermdu að hjarta hans hefði stöðvast en svo var ekki þó hjartahnoði hafi verið beitt til öryggis.

„Það var ákveðið að taka enga áhættu og hefja hjartahnoð sem mér skilst að hafi verið góð ákvörðun. Ég er mjög ánægður með hvað menn brugðust hratt og vel við. Ég fékk rothögg sem orsakaði slæman heilahristing. Þá getur ýmislegt gerst. Menn geta fengið krampa sem var það sem gerðist hjá mér. Þá urðu menn svolítið skelkaðir en það var frábært fólk í kringum þetta sem brást hárrétt við. Mér skilst að sjúkraþjálfarinn, Bjarni [Guðjónsson, leikmaður KR] og fleiri góðir menn hafi staðið sig mjög vel. Ég er mjög ánægður með viðbrögð hjá báðum liðum og stuðningsmönnum þeirra,“ sagði Elfar.

„Það er bara gott að ekki skyldi fara verr og yndislegt að sjá samhuginn hjá öllum. Það skipti ekki máli í hvaða treyjum menn væru eða hvað, það hugsuðu bara allir um þetta og sýndu þessu virðingu,“ bætti hann við.

Elfar, sem er 23 ára, má lítið hreyfa sig næstu tvær vikurnar en hefur svo endurhæfingu. Hann má ekki keppa í fótbolta næstu mánuðina en stefnir að því fullum fetum að snúa aftur á knattspyrnuvöllinn.

„Ég stefni að sjálfsögðu að því. Á meðan það kemur ekkert slæmt út úr þessu verð ég vonandi búinn að jafna mig eftir nokkrar vikur og get farið að beita mér að nýju. Ég stefni að því á meðan heilsan segir ekki annað. Maður hefur auðvitað heyrt af því bæði í kvenna- og karlaboltanum að menn lendi í basli vegna höfuðmeiðsla, og maður hættir sér auðvitað ekkert út í neitt rugl. Ég vona bara að ég jafni mig og geti farið að berjast aftur sem fyrst,“ sagði Húsvíkingurinn.