Örn Ásbjarnarson fæddist í Danmörku 19. júlí 1948. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 2. ágúst 2013.

Hann var einkabarn hjónanna Ásbjarnar E. Magnússonar f. 10. janúar 1921, d. 23. mars 1990 og Margrétar Matthíasdóttur f. 10. júní 1927, d. 25. október 2003.

Örn giftist Önnu S. Björnsdóttur 1970, þau skildu. Börn þeirra eru 1) Ásbjörn Sírnir, sambýliskona hans Petrea Dögg Ríkarðsdóttir. Börn Ásbjarnar úr fyrra hjónabandi með Kolbrúnu Júlíu Erlendsdóttur eru a) Malena Sif, hún á dótturina Nadíu Ósk og b) Anna Lilja, sambýliskona hennar er Eva Davíðsdóttir. Barn Petreu úr fyrra sambandi er Hekla Marín Atladóttir. 2) Starkaður Örn, kvæntur Aðalheiði Kristinsdóttur. Börn þeirra eru Valur Kristinn og Árný Svanhildur.

3. nóvember 1977 kvæntist Örn eftirlifandi eiginkonu sinni Denise Kristínu Champion, f. 21. desember 1949. Þau eiga tvær dætur 1) Tinna Ýrr, gift Arnari Valdimarssyni. Börn þeirra eru Kara Kolbrá og Eldar Hugi. 2) Tanja Dögg, gift Reyni Erni Björnssyni. Börn þeirra eru Styrkár Vatnar og Kjalvör Brák.

Örn útskrifaðist úr Kennaraháskóla Íslands árið 1969 og kenndi í 2 ár á Hólmavík. Hann fékk starf sem flugafgreiðslumaður hjá Loftleiðum, síðar Icelandair, árið 1971 og starfaði þar næstu 42 árin. Örn var mikill fjölskyldumaður og naut þess að eyða tíma með börnum sínum og barnabörnum. Hann var mikill listunnandi, sama hvort um myndlist, bókmenntir eða tónlist var að ræða. Hann hafði unun af að ferðast og átti Gríska eyjahafið hug hans allan. Örn lét af störfum vegna veikinda í september 2012.

Útför Arnar hefur farið fram í kyrrþey.

Blómin falla, fölskva slær

á flestan ljóma. –

Aldrei hverfur

angan sumra blóma.

Þannig varstu vinur, mér

sem vorið bjarta.

Það sem gafstu

geymist mér í hjarta.

Ilma sprotar, anga lauf,

sem aldrei falla.

Drottinn launi

elskuna þína alla.

(Sigurbjörn Einarsson.)

Með ljóði þessu viljum við minnast Arnars sem góðs drengs og fjölskylduföður og verður hans sárt saknað.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til Denise og fjölskyldunnar allrar.

Jóhanna og Valdimar.