Fréttaskýring Kristján Jónsson kris@mbl.is Nokkur eftirmál hafa orðið af úrslitaleiknum í 1. deild kvenna í sveitakeppni GSÍ sem lauk á sunnudaginn.

Fréttaskýring

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Nokkur eftirmál hafa orðið af úrslitaleiknum í 1. deild kvenna í sveitakeppni GSÍ sem lauk á sunnudaginn. Golfkúbbur Kópavogs og Garðabæjar sigraði þá Keili úr Hafnarfirði á kærumáli eftir framlengdan úrslitaleik. Málsatvik voru í stuttu máli þau að Þórdís Geirsdóttur úr Keili leitaði ráða varðandi kylfuval hjá samherja sínum, Signýju Arnórsdóttur, sem lokið hafði sínum leik..

Liðsstjóri GKG gerði við það athugasemd og eftir að hafa fengið mat dómara þá lagði hann inn kæru til mótsstjórnar. Samkvæmt tilkynningu frá GSÍ gerðist Þórdís brotleg við reglu 8-1b. GKG vann því málið og refsingin er holutap fyrir viðkomandi lið. Sú þúfa velti þungu hlassi því holutapið réð úrslitum í viðureigninni sem var komin í bráðabana og einnig í úrslitaleiknum sjálfum. Honum lauk þar með 3:2 fyrir GKG en ekki 3:2 fyrir Keili en Þórdís vann Særós Evu Óskarsdóttur eftir fjórar holur í bráðabana. Þeim úrslitum var sem sagt snúið við og Særós vann leikinn.

Niðurstöðunni illa tekið

Sé mið tekið af frásögn netmiðilsins Kylfings þá tóku liðsmenn Keilis niðurstöðunni illa og yfirgáfu klúbbhúsið í Leirunni, þar sem keppni í 1. deild kvenna fór fram, áður en liðsmenn GKG veittu verðlaunum sínum viðtöku. Í samtali við netmiðilinn Vísi baðst Guðrún Brá Björgvinsdóttir, einn liðsmanna Keilis, afsökunar á hegðun Keiliskvenna að keppni lokinni.

„Liðinu var vissulega mjög svo brugðið eftir þessa keppni en aftur á móti verð ég að biðjast afsökunar á þessari hegðun okkar eftir á. Við áttum ekki að láta þetta fara svona í skapið á okkur,“ er þar haft eftir Guðrúnu.

GKG setti yfirlýsingu inn á Facebook-síðu sína í gær þar sem klúbburinn vildi árétta að liðsstjóri GKG hefði strax gert athugasemd við samskipti Þórdísar og Signýjar en ekki eftir að Særós tapaði fyrir Þórdísi.

GKG gagnrýndi dómarann

„Af fréttaflutningi af úrslitum sveitakeppni kvenna má ætla að GKG hafi beðið með kæru vegna reglugerðarbrots Þórdísar Geirstóttur þar til bráðabana hennar og Særósar Evu Óskarsdóttur var lokið. Það er rangt. Liðsstjóri GKG, Gunnar Jónsson fór strax að kanna málið þegar Þórdís sótti sér aðstoð á annarri holu og talaði síðan við dómara við þriðju holu. Dómarinn var ekki viss í sinni sök en kom til Gunnars á fjórðu holu og sagði þetta óheimilt. Þegar Þórdís bað aftur um ráð á fjórðu holu, áður en hún tók annað höggið sitt og þremur höggum áður en hún kláraði holuna, brást Gunnar strax við og krafðist formlegra svara frá dómaranum. Í framhaldinu og einnig áður en Þórdís lauk leik gerði hann liðsstjóra Keilis grein fyrir kröfunni.“

Í yfirlýsingu GKG eru vinnubrögð dómarans jafnframt gagnrýnd. „Dómarinn gerði það versta í stöðunni, lét leikinn halda áfram í stað þess að stöðva hann og úrskurða í málinu. Þetta er kjarni málsins, hefði dómarinn gripið strax inn í atburðarásina þá hefði leikurinn ekki klárast og framhaldið hefði þar af leiðandi verið með öðrum hætti.“