Ógnað Greenwald starfaði með uppljóstraranum Edward Snowden.
Ógnað Greenwald starfaði með uppljóstraranum Edward Snowden. — AFP
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Breskir þingmenn hafa krafið lögreglu skýringa og mannréttindasamtök hafa fordæmt að maki blaðamanns breska blaðsins The Guardian sem hefur skrifað ítarlega um njósnahneyksli NSA hafi verið stöðvaður á Heathrow-flugvelli á sunnudag og honum haldið þar í níu klukkustundir.

David Miranda er sambýlismaður blaðamannsins Glenns Greenwalds en sá síðarnefndi vann með uppljóstraranum Edward Snowden að því að afhjúpa víðtækar njósnir NSA. Miranda var stoppaður af yfirvöldum á flugvellinum í fyrradag þar sem hann millilenti á leið sinni frá Berlín til Rio de Janeiro. Honum var haldið þar með vísan í bresk hryðjuverkalög. Lögreglan segir að hann hafi ekki verið handtekinn og honum hafi verið sleppt úr haldi.

Skilaboð til blaðamanna

Ríkisstjórn Brasilíu gagnrýndi meðferðina á Miranda en hann er brasilískur ríkisborgari. Lýstu þau alvarlegum áhyggjum sínum af aðgerðum breskra yfirvalda á flugvellinum. Brasilísk stjórnvöld ætla einnig að krefja bandarísk yfirvöld skýringa á atvikinu.

Greenwald skrifaði pistil vegna málsins í The Guardian í gær þar sem hann sagði að fartölva, farsími og minnislyklar Miranda hefðu verið gerðir upptæk á flugvellinum. Öryggisstarfsmaður á flugvellinum hafi sagt sér í síma að Miranda ætti ekki rétt á lögmanni á staðnum og að Greenwald gæti ekki fengið að tala við hann. Atvikið er augljós tilraun til að ógna blaðamönnum að mati Greenwalds.

„Þetta er augljóslega ætlað sem skilaboð til okkar sem höfum sagt fréttir af NSA og breskum kollegum þeirra, GCHQ,“ skrifaði Greenwald.