Álykta Ársfundur Vestnorræna ráðsins stendur yfir á Grænlandi um þessar mundir.
Álykta Ársfundur Vestnorræna ráðsins stendur yfir á Grænlandi um þessar mundir.
„Vestnorræna ráðið fordæmir harðlega hótanir Evrópusambandsins um refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum vegna makrílveiða landanna, sem og refsiaðgerðir sambandsins gegn Færeyjum vegna síldarveiða þeirra.

„Vestnorræna ráðið fordæmir harðlega hótanir Evrópusambandsins um refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum vegna makrílveiða landanna, sem og refsiaðgerðir sambandsins gegn Færeyjum vegna síldarveiða þeirra.“ Þannig hefst ályktun sem samþykkt var af Vestnorræna ráðinu í gær en aðild að því eiga Ísland, Færeyjar og Grænland.

Í ályktuninni segist ráðið mótmæla þeim aðferðum sem ESB hafi valið að nota gegn nágrannaríkjum sínum í krafti stærðar sinnar og afls. Þá vekur ráðið athygli á því að fyrri aðgerðir sambandsins hafi haft alvarleg áhrif á lítil samfélög í vestnorrænu ríkjunum.

Ráðið harmar jafnframt að sjávarútvegsráðherra Noregs, Lisbeth Berg-Hansen, hafi lýst yfir stuðningi við aðgerðir sambandsins og hvetur Norðurlandaráð til að beita sér í málinu og styðja Ísland og Færeyjar.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, situr nú ársfund ráðsins á Grænlandi og sagði í samtali í gærkvöldi að hljóðið væri þungt í Færeyingum vegna málsins. Það væri sameiginlegt álit fulltrúa í ráðinu að staða landanna væri sterkari ef þau stæðu saman og að ályktunin væri liður í því.