Toyota Auris TS
Toyota Auris TS
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þann 21. september næstkomandi verður tilkynnt hvaða bíll hlýtur titilinn Bíll ársins á Íslandi 2014. Bandalag íslenskra bílablaðamanna (BÍBB) stendur að valinu en bíll ársins hefur verið valinn síðan 2001.

Þann 21. september næstkomandi verður tilkynnt hvaða bíll hlýtur titilinn Bíll ársins á Íslandi 2014. Bandalag íslenskra bílablaðamanna (BÍBB) stendur að valinu en bíll ársins hefur verið valinn síðan 2001. Að þessu sinni eru það 20 bílar í þremur flokkum sem valið stendur um. Flokkarnir eru smábílar, fjölskyldubílar og flokkur jeppa og jepplinga. Af þessum tuttugu bílum verða þrír bílar valdir í forvali til að keppa sín á milli.

Eftir prófanir dómnefndar á úrslitabílunum eru þeim veitt stig fyrir þætti eins og aksturseiginleika, verð, gæði, hagkvæmni, rými og svo mætti lengi telja. Veitt eru verðlaun fyrir hvern flokk og hlýtur stigahæsti bíllinn yfir heildina verðlaunagripinn Stálstýrið í eitt ár.

Smábílar og minni millistærð

Renault Clio, VW Golf, VW Golf GTi, Ford B-Max, Skoda Rapid, Toyota Auris TS og Toyota Corolla.

Minnsti bíllinn í flokknum er Renault Clio en honum var reynsluekið af Morgunblaðinu í vor. Hann varð í öðru sæti í vali á bíl ársins í Evrópu í ár og VW Golf vann þann titil með yfirburðum en hann kom hingað til lands á svipuðum tíma. VW Golf GTi er nýkominn til landsins og var honum reynsluekið strax og hann kom til Heklu. Skoda Rapid er nýr bíll frá Skoda sem fyllir upp í gat milli stærðarflokka. Toyota Auris TS og Corolla eru nýkomnar í sölu þegar þetta er skrifað en Morgunblaðið reynsluók þeim báðum á Mallorca fyrir skömmu.

Fjölskyldubílar:

Mercedes-Benz CLA, Kia Carens, Mazda 6, Skoda Octavia og Lexus IS300h.

Kia Carens var kynntur til leiks í bílasýningunni í Fífunni í vor og reynsluekið á svipuðum tíma. Mercedes-Benz CLA er nýkominn til landsins eins og Lexus IS300h tvinnbíllinn. Skoda Octavía var hins vega kynntur fyrir blaðamönnum í Portúgal í febrúar. Mazda 6 er þessa dagana í reynsluakstri hjá Morgunblaðinu.

Jeppar og jepplingar:

Mercedes-Benz GL, Honda CR-V, Subaru Forester, Isuzu D-Max, Ford Kuga, Mazda CX-5, Mitsubishi Outlander og Toyota RAV4.

Þessi flokkur hefur alltaf verið mikilvægur hér á Íslandi og nokkrum sinnum hefur jepplingur hlotið titilinn Bíll ársins. Honda CR-V kom sterkur inn strax snemma í vetur og skömmu síðar var Toyota RAV4 kynntur blaðamönnum á Spáni. Mitsubishi Outlander kom á svipuðum tíma sem og jepplingarnir Subaru Forester og Mazda CX-5. Jeppinn í hópnum er nýr Isuzu D-Max og nýkominn á klakann er nýr Mercedes Benz GL.

Ekki allir tiltækir

Valið á Íslandi er seinna á árinu en í flestum öðrum löndum en það kemur til vegna þess að bílarnir koma í mörgum tilfellum seinna hingað til lands en í löndunum í kringum okkar. Sumir bílarnir sem til greina gætu komið hafa einfaldlega ekki komið til landsins ennþá eins og Mazda3.

Aðrir bílar eins og Range Rover, Porsche Cayman og Chevrolet Trax voru ekki fáanlegir hjá tilheyrandi umboðum og því ekki gjaldgengir í valið hérlendis þar sem ekki var hægt að reynsluaka þeim.

agas@mbl.is