Kamilla Thorarensen fæddist á Gjögri í Árneshreppi 25. febrúar 1943. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Ísafirði 30. júlí 2013.

Útför Kamillu fór fram frá Ísafjarðarkirkju 10. ágúst 2013.

Elsku hjartans mamma mín, ég veit ekki hvar ég á að byrja á að lýsa tilfinningunni að þú sért farin úr okkar vídd. Söknuðurinn er mikill og sár en vitundin um að þú finnir ekki lengur til huggar mann. Það sem var lagt á þinn litla kropp var mikið, of mikið fyrir eina manneskju myndi ég segja. Og af hverju lífið getur verið svona erfitt og ósanngjarnt veit engin.

Dagarnir líða og maður reynir að vera sterkur og halda áfram, það koma góðir dagar og það koma dagar sem maður vill bara vakna upp frá vondum draumi. Mér finnst svo stutt síðan ég talaði við þig seinast, en þá varstu svo jákvæð og sterk og sagðir mér að nú færi þér að batna og stutt væri í heimferð, ég veit núna hvaða heimferð þú varst að tala um. Ekki heim í Mjallargötuna, heldur heim til ömmu og afa. Tveim sólarhringum síðar varstu farin.

Þú varst okkur yndisleg móðir, svo hlý og svo góð. Þú kenndir mér margt og ráðlagðir mér vel, vildi bara óska þess stundum að ég hefði farið meira eftir orðum þínum, því mamma veit jú alltaf best og vill manni alltaf það besta. Ég er þér svo ólýsanlega þakklát fyrir allt, og þá sérstaklega fyrir drenginn okkar sem við í sameiningu ólum vel upp og er orðin að prýðisgóðum ungling sem alls staðar fær hrós fyrir kurteisi og góðlegheit.

Ég er stolt af því að eiga þig sem móður, hefði ekki getað hugsað mér neina betri, og ég er stolt af uppruna mínum. Komin af hörkuduglegu og yndislegu fólki frá fallegasta stað jarðríkis. Stundunum með þér norður á Gjögri gleymi ég aldrei, en þar kynntir þú okkur fyrir náttúrunni og dýrunum og virðingunni. Oft gekk mikið á og þú örugglega mjög þreytt með 3 óþekka krakkagríslinga, hlaupandi eftir okkur niður á bryggju eða niður að tanga, þar sem þú varst hrædd um okkur, enda hættulegir staðir og þá sérstaklega tanginn kannski. En þú fræddir okkur vel um hætturnar sem víða gætu leynst og ég held nú að við höfum gegnt þér svona oftast nær en stundum kom það upp að forvitnin varð yfirsterkari eins og vill gerast hjá ævintýraþyrstum börnum.

Elsku mamma, ég gæti setið hér fyrir framan tölvuna langt fram á nótt og skrifað inn góðar minningar. Vildi bara skrifa nokkur orð þér til heiðurs. Við rifjum þetta upp þegar við erum sameinaðar á ný. Ég elska þig, mamma mín, og sakna svo sárt. Sofðu rótt.

Þín dóttir,

Jónína Guðrún Thorarensen.