Spenna Egypskur hermaður gætir stjórnlagadómstóls landsins í Kaíró í gær.
Spenna Egypskur hermaður gætir stjórnlagadómstóls landsins í Kaíró í gær. — AFP
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Hosni Mubarak, fyrrverandi forseta Egyptalands sem hrökklaðist frá völdum árið 2011, verður hugsanlega sleppt úr haldi á næstunni.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Hosni Mubarak, fyrrverandi forseta Egyptalands sem hrökklaðist frá völdum árið 2011, verður hugsanlega sleppt úr haldi á næstunni. Saksóknarar létu spillingarákærur gegn honum falla niður og segir lögmaður hans að gengið verði frá öðru slíku máli gegn honum á næstu sólarhringum. Að því loknu verði honum sleppt. Óttast er að verði fyrrverandi forsetanum sleppti muni það auka enn á ólguna í landinu.

Mubarak var handtekinn eftir uppreisnina gegn honum og var dæmdur í lífstíðarfangelsi í fyrra fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir fjöldamorð á mótmælendum. Hann bíður enn þess að réttað verði að nýju í því máli en bæði verjendur hans og saksóknarar áfrýjuðu fyrri dómi.

Tilbúnir að hlaupa undir bagga

Ástandið í Egyptalandi hefur verið afar eldfimt undanfarnar vikur og hafa að minnsta kosti 850 manns, þar af 70 her- og lögreglumenn, fallið frá því að yfirvöld létu til skarar skríðar gegn stuðningsmönnum Mohammed Morsis á miðvikudag. Ljóst er að verði Mubarak látinn laus mun það síst verða til þess að lægja öldurnar í landinu.

Tala látinna hækkaði enn í gær þegar vopnaðir menn veittu tveimur rútum með lögreglumönnum á frívakt fyrirsát á Sinai-skaga. Árásarmennirnir skutu handsprengjum á rúturnar með þeim afleiðingum að tuttugu og fimm lögreglumenn létust. Fyrr um daginn höfðu 37 meðlimir Bræðalags múslíma látist í haldi lögreglunnar að því er AFP -fréttastofan segir.

Evrópskir utanríkisráðherrar ætla að funda á morgun til að ræða hvernig Evrópulönd geti knúið á um friðsamlega lausn mála í Egypalandi. Ein leið gæti verið að draga til baka milljarða evra styrki og lán til egypska ríkisins.

Sádi-Arabar lýstu því yfir í gær að arabísk og íslömsk ríki væru tilbúin að hjálpa Egyptum fjárhagslega, drægju vestrænar þjóðir úr stuðningi sínum vegna aðgerða þeirra gegn mótmælendum undanfarna viku.