[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.

Viðtal

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

Þrír uppaldir Framarar tóku þátt í bikarsigri liðsins gegn Stjörnunni á laugardaginn þar sem félagið batt enda á 23 ára langa eyðimerkurgöngu í leit að titlum en síðast vann Fram titil 1990 þegar Safamýrarliðið varð Íslandsmeistari.

Markvörðurinn Ögmundur Kristinsson var nýfæddur þegar sá stóri datt síðast í hús, Orri Gunnarsson var ekki orðinn að hugmynd enda fæddur 1992 en Daði Guðmundsson var þá þegar byrjaður að spila fyrir Fram í yngri flokkum.

Fram-hjartað er stórt og helblátt í Daða enda starfar hann fyrir félagið sitt í dag auk þess sem hann hefur spilað fyrir það í 16 ár. Hann verður brátt leikjahæsti maður félagsins og ætlar svo sannarlega ekki að nýta þetta „tækifæri“ til að hætta.

Fólkið búið að bíða lengi

„Maður heyrir menn oft tala um að eitthvað sé ólýsanlegt þegar þeir vinna titla. Þetta er þannig. Þetta var alveg ólýsanlegt. Maður hafði ímyndað sér í gegnum árin hvernig væri að vinna eitthvað. Svo tekst það og þá er bara svo mikið af tilfinningum sem vill brjótast út. Þetta er algjör snilld,“ segir Daði í viðtali við Morgunblaðið beðinn um að rifja upp sigurtilfinninguna eftir að Fram hafði lagt Stjörnuna í vítaspyrnukeppni.

Eftir sigurinn var svo haldið í Safamýrina. „Þar var okkur boðið í veislukvöldverð þar sem hátt í 100 manns voru; leikmenn, konur, starfslið, stjórn og meistaraflokkur kvenna. Eftir það var opið hús og það hreinlega fylltist. Þarna var samankomið fullt af fólki sem er búið að bíða öll þessi 24 ár. Við fórum svo nokkrir upp í Grafarholt þar sem Fram er líka. Þar var hverfishátíð; brekkusöngur og varðeldur. Þar komum við með bikarinn og tókum þátt. Það var ekki síður skemmtilegt,“ segir Daði.

Engir titlar

Í sögulegu samhengi er Fram gríðarlega sigursælt félag og einn af risunum á Íslandi með 18 Íslandsmeistaratitla og nú átta bikarmeistaratitla. Daði ólst upp við ekkert nema sigra en sjálfur hafði hann þar til á laugardaginn ekki upplifað mikið af slíku í meistaraflokki.

„Maður elst upp við að vera í sigursælum yngri flokkum og horfa á gullaldarlið Fram vinna titla á sama tíma. Svo kemur maður í meistaraflokk þar sem maður er búinn að vera í 16 ár en upplifir ekkert nema ströggl fyrir utan kannski fyrstu tvö til þrjú árin með Todda [Þorvaldi Örlygssyni],“ segir Daði.

Ofan á svekkelsið í deildinni hefur Daði upplifað þrjú töp í bikarúrslitaleikjum. Hann var í byrjunarliðinu þegar Fram tapaði fyrir Fylki, 3:1, árið 2002 en var ónotaður varamaður í 1:0-tapi gegn Val 2005 og tapi gegn Breiðabliki í vítaspyrnukeppni 2009. Hann missti þó af Blikaleiknum af furðulegum ástæðum.

„Ég var þá örlítið tæpur fyrir leik og átti að fá sprautu til að deyfa mig niður. Það endaði með því að ég stóð ekki í lappirnar í fimm tíma. Það veit enn enginn hvað gerðist en ég gat ekki verið með. Þetta allt saman magnaði gleðina á laugardaginn enn frekar.“

Ekki hættur

Þó að Daði hafi spilað lengi fyrir Fram er hann þó ekki nema 32 ára gamall og hann ætlar ekki að nýta þennan bikarsigur sem tímapunkt til að leggja skóna á hilluna. „Ég fer ekki að hætta núna. Sérstaklega eftir þetta. Nú bíður okkar Evrópukeppni á næsta tímabili þannig að maður heldur eitthvað áfram,“ segir Daði sem vonast til að þessi bikarmeistaratitill sé upphafið að nýrri og betri tíð fyrir þá bláu.

„Ég held að það sé ágætis meðbyr með okkur núna. Við þurfum bara ná að klára tímabilið í deildinni með sæmd. Þá getur þetta verið upphafspunktur að einhverju betra. Við verðum bara nýta meðbyrinn. Það verður líka vonandi styttra á milli titla núna,“ segir Daði Guðmundsson.

Fullt af litlum Frömurum

Auk þess að spila með Fram starfar Daði sem íþróttafulltrúi félagsins í Grafarholti, eða Úlfarsárdal, þangað sem félagið flytur á næstu árum. Þar gengur uppbyggingin vel og eflaust hraðar en margir gera sér grein fyrir.

„Yngstu flokkarnir okkar eru orðnir mjög stórir. Það eru rúmlega 90 gaurar í 7. flokki og yfir 100 krakkar í 8. flokki. Það er alveg virkilega góð þátttaka hérna. Frá svona 4. flokki og niður er meirihluti Framara í dag úr Grafarholti. Íþróttalega séð er uppbyggingin komin ágætlega af stað en það vantar enn mannvirkin. Við bíðum enn eftir því að fá heimavöll hingað uppeftir, eina almennilega gryfju,“ segir Daði.