Báðir stjórnarflokkarnir lýstu því yfir fyrir kosningar að vera utan ESB og hætta viðræðum

Furðu vekur hversu auðvelt er að láta einfalda hluti flækjast fyrir sér. Gott dæmi er yfirlýst stefna stjórnarflokkanna í Evrópumálum.

Báðir flokkarnir héldu fundi fyrir síðustu kosningar til að marka stefnu sína. Sú stefna var gefin út og er skýr. Í stefnu Sjálfstæðisflokksins frá síðasta landsfundi segir: „Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Stefna Framsóknarflokksins er nánast orðrétt sú sama, en þar segir: „Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Er einhver leið að túlka þessa yfirlýstu stefnu á þann veg að flokkarnir hafi ætlað sér að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið? Gátu kjósendur gert ráð fyrir að þessir tveir flokkar myndu halda lífinu í aðlögunarferlinu, eða standa fyrir kosningu um að halda því áfram? Nei, vitaskuld ekki.

Flokkarnir lýstu því báðir yfir að þeir teldu það andstætt hagsmunum Íslands að ganga í Evrópusambandið. Til viðbótar tóku þeir sérstaklega fram að forsenda frekari viðræðna um aðild væri þjóðaratkvæðagreiðsla um málið, en í því felst að sjálfsögðu ekki loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu enda flokkarnir á móti inngöngu í sambandið. Með yfirlýsingunni var miklu fremur verið að árétta að þessir flokkar myndu aldrei ganga fram með þeim hætti sem fyrri ríkisstjórn gerði og sækja um aðild án stuðnings og vilja þjóðarinnar um að gerast aðili.

Þegar rætt er um að hætta viðræðunum og slíta aðlögunarferlinu er engin leið að horfa framhjá því hvernig staðið var að umsókninni á sínum tíma. Farið var af stað með blekkingum og þvingunum og án stuðnings við aðild innan þings eða utan. Því var ranglega haldið fram að hægt væri að „kíkja í pakkann“ og að ferlið yrði stutt, einfalt og án aðlögunar. Allt reyndust þetta ósannindi.

Og varla þarf að minna á að vinstri stjórnin sem þvingaði málið í gegn strax í kjölfar mikillar pólitískrar upplausnar lagði málið ekki fyrir þjóðina. Þegar af þeirri ástæðu, en einnig vegna þeirra óheilinda sem einkennt hafa ferlið, er fráleitt að nú eigi að fara fram sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um málið.

Kjósendur fengu nýlega tækifæri til að segja skoðun sína og nýttu það með því að kjósa þá flokka sem höfðu skýra stefnu um að vilja ekki áframhaldandi viðræður eða aðild. Þeim flokkum sem vildu áframhaldandi viðræður og aðild var hafnað með eftirminnilegum hætti.

Skýrara gæti þetta ekki verið. Stefna stjórnarflokkanna um viðræðurnar er samhljóma og afdráttarlaus og tíma þeirra er betur varið í önnur og gagnlegri mál.