Til allra átta Strætó á leið til Egilsstaða frá Akureyri í gær. Stoppistöðin er við menningarhúsið Hof á Akureyri.
Til allra átta Strætó á leið til Egilsstaða frá Akureyri í gær. Stoppistöðin er við menningarhúsið Hof á Akureyri. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árni Grétar Finnsson agf@mbl.is Eyþing, samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, hefur óskað eftir heimild aðildarsveitarfélaga fyrir yfirdráttarheimild vegna rekstrarvanda almenningssamgangna á Norðurlandi.

Árni Grétar Finnsson

agf@mbl.is

Eyþing, samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, hefur óskað eftir heimild aðildarsveitarfélaga fyrir yfirdráttarheimild vegna rekstrarvanda almenningssamgangna á Norðurlandi.

„Það eru átta landshlutasamtök á landinu og Eyþing eru þau samtök sem sjá um Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur. Á síðasta kjörtímabili hjá síðustu ríkisstjórn var ákveðið að færa almenningssamgöngur frá Vegagerðinni og til þessara landshlutasamtaka. Það hefur gengið upp og ofan,“ segir Geir Kristinn Aðalsteinsson, stjórnarformaður Eyþings. Hann bætir við: „Ríkið gerði samninga til tíu ára við öll landshlutasamtökin. Annars vegar er það höfuðborgarsvæðið sem fær um 900 milljónir á ári í þetta verkefni, og er því svolítið sér á báti. Samtökin á Suður- og Vesturlandi og á Suðurnesjum fá svo 29 milljónir króna á ári í svokallaðan þróunarkostnað. Hins vegar er svo restin, þ.e. Vestfirðir, Norðurland vestra, við í Eyþingi og Austfirðingarnir, sem fáum ekki nema 3,2 milljónir á ári, svo að það slagar í tífaldan mun.“

Geir og Sigurður Valur Ásbjarnarson, formaður nefndar Eyþings um almenningssamgöngur, funduðu með Hreini Haraldssyni vegamálastjóra fyrir síðustu alþingiskosningar og því segir Geir að málið sé Vegagerðinni vel kunnugt. Þann 11. september nk. munu forsvarsmenn Eyþings funda með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, vegna málsins.

Akureyri frábrugðin öðrum

Geir segir að Akureyri, og þá Eyþing, sé frábrugðin öðrum landshlutasamtökum vegna þess að almenningssamgöngur í bænum þurfa að taka mið af bæjum í allar áttir frá Akureyri. „Akureyri er miðdepillinn í allar áttir á strjálbýlu svæði og erfitt er að fá megnið af íbúum til þess að nota strætó. Það er hins vegar mun auðveldara á Vesturlandinu, Suðurlandinu og á Reykjanesi þar sem stór hluti fólks sækir sér vinnu suður. Það sem við erum að benda á núna er að þessi þróunarkostnaður þarf að vera sá sami hjá okkur eins og hjá hinum,“ segir Geir. Hann telur að reksturinn ætti að geta gengið vel ef ríkið mætir þessum kröfum samtakanna. Ef ekki, telur hann að sveitarfélögin þurfi að taka á sig háar upphæðir í lok árs og segir hann óásættanlegt fyrir sveitarfélögin að taka við verkefnum af ríkinu sem þau þurfa svo sjálf að leggja út fleiri milljónir fyrir. „Ef þetta fer þannig að ríkið getur ekki komið að þessu þá er hljóðið í flestum sveitarstjórnarmönnum hér fyrir norðan það að þá munum við hreinlega skila verkefninu aftur til ríkisins. Ég er þó bjartsýnn á framhaldið,“ segir Geir.

Vilja sama styrk og aðrir

Geir segir að þingmenn Norðausturkjördæmis séu með öll gögn undir höndum og viti af málinu, og það sama megi segja um ráðherra úr kjördæminu. „Við vonumst til þess að málið leysist þannig að við fáum þennan þróunarstyrk eins og aðrir fyrir sunnan og vestan og þá getur þetta gengið vel,“ segir Geir. Hann segir samtökin ekki hafa verið í sambærilegum skuldbindingum. „Við lítum svo á að Eyþing eigi ekki að vera í skuldbindingum sem þessum nema með heimild allra sveitarfélaganna.“

Í Eyþingi eru þrettán sveitarfélög. Þau eru: Akureyrarbær, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Langanesbyggð, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Svalbarðshreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Tjörneshreppur og Þingeyjarsveit.