Eric Clapton við nýja sérsmíðaða Ferrari-fákinn.
Eric Clapton við nýja sérsmíðaða Ferrari-fákinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gítarleikarinn Eric Clapton gerir fleira sér til dundurs en kasta fyrir lax í íslenskum laxveiðiám. Hann er einnig með bíladellu á háu stigi og á margan eðalvagninn. Safnar þeim auk eðal armbandsúra, sem hann ku eiga mörg.

Gítarleikarinn Eric Clapton gerir fleira sér til dundurs en kasta fyrir lax í íslenskum laxveiðiám. Hann er einnig með bíladellu á háu stigi og á margan eðalvagninn. Safnar þeim auk eðal armbandsúra, sem hann ku eiga mörg. Á þessu hefur hann efni því auður Claptons er álitinn um jafnvirði 25 milljarða króna.

Eric Clapton fékk áhuga á bílum sem barn og kolféll fyrir Ferrari er vinur hans og bítillinn George Harrison kom á slíkum í heimsókn til hans. Á dögunum kom Ferrari-fákur sem sérsmíðaður var fyrir Clapton í fyrra fyrst fyrir almenningssjónir. Vettvangurinn var viðeigandi; hraðahátíðin svonefnda í Goodwood á Englandi.

Þar var á ferðinni nýjasti fákur Claptons sem ber tegundarheitið Ferrari SP12 EC. Er þar um að ræða sérsmíðaða útgáfu af Ferrari 458 sem sniðin var að þörfum og séróskum gítaristans góða. Enginn annar Ferrari verður eins og þessi.

Áhorfendur í Goodwood kunnu vel að meta nærveru bílsins þótt ekki hafi gítargoðið sjálft tekið hann til kostanna þar, heldur reynsluökumaður Ferrari, Marc Gene, sem keppti í formúlu-1 fyrir nokkrum árum og mun vera eini ökumaðurinn frá upphafi sem þar hafi keppt með háskólapróf upp á vasann.

SP12 EC bíllinn mun hafa kostað Clapton um þrjár milljónir sterlingspunda, jafnvirði um 550 milljóna íslenskra króna. Er hann afurð sérstaks hálfleynilegs verkefnis Ferrari sem gengur út á að gefa sérlegum viðskiptavinum tækifæri á að eignast skraddarasaumaða bíla. Hið fræga ítalska hönnunarhús Pininfarina átti aðild að hönnun bílsins. Víst þykir, að bíllinn muni halda verðgildi sínu – og reyndar gott betur – fari svo að Clapton bjóði hann falan þar sem um einstakt eintak er að ræða.

Til bílsins sást fyrst í Bretlandi í fyrrasumar en þátttakan í Goodwood markar nokkurs konar frumsýningu hans. Lét Clapton skapa bílinn til heiðurs uppáhalds Ferrari-bíl sínum, sem er af gerðinni 512 BB. Af þeirri gerð hefur hann átt þrjá.

Véla- og fjöðrunarbúnaður SP12 EC er eins og á Ferrari 458 en áhrifanna frá 512 BB gætir í yfirbyggingunni. Grunnbyggingunni og föstum þáttum hennar var ekki hægt að breyta og gat Clapton því ekki fengið sporöskjulaga framljós BB-bílsins eins og hann vildi. Í staðinn fékk hann Ferrari Enzo aðalljós, sem þykir ekki lakara.

Sama V8-vél er í sérsniðnum bíl Claptons og í 458-bílnum. Var hann talinn ofan af því að byggja bílinn upp af núverandi módelum með 12-strokka vél eins og er í 512 BB-bílnum, notast heldur við 458 sem grunn. Hermt er að talan 12 í tegundargerð bílsins tákni að hann sé tólfti skraddarasaumaði bíllinn í sérsmíðaverkefni Ferrari.

Reyndar er bíllinn sá ellefti í röð þeirra sem raunverulega hafa verið framleiddir og það er hjátrú Claptons sem orsakar töluna 12. Hann heldur mikið upp á töluna þrjá og því er notast við 12 (1 plús 2) í stað 11. Gítaristinn góði slær sjaldan eða aldrei feilnótu á gítarnum og sömuleiðis er bílhönnunin, sem hann átti sinn þátt í, sögð meistarastykki.

„Þar sem ég ólst upp í Ripley var það helsta skemmtanin á grunnskólaaldri að sitja í strætisvagnaskýli við Portsmouth Road og fylgjast með bílunum sem fóru þar hjá. Það sem fyrir augu bar var stórkostlegt og voru margir bílanna virkilega framandi. Ég man sérstaklega eftir Aston Martin keppnisbílum frá þessum tíma þegar ég var bara átta ára gamall. Þá fór ég oft á þessum tíma á bílaverkstæði við Ripley og skoðaði bílana þar.

Það er saga að segja frá því hvernig ég féll fyrir Ferrari. Vinur minn George Harrison kom oft í heimsókn til mín í Hurtwood Edge. Hann hafði gott skynbragð fyrir fagurfræði og stíl. Það var gott að fylgjast með honum og velta því fyrir sér hvað hann myndi kaupa næst. Þetta hefur líklega verið kringum 1969 og fram að því hafði hann aðallega keypt bíla eins og Mercedes Pullman. Svo birtist hann á sportbíl og ég hafði aldrei séð slíkan bíl berum augum. Þetta var dökkblár Ferrari 365 GTC með gulbrúnni innréttingu. Fegurri bíl hafði ég aldrei séð. Ég dáðist að honum, dularfullur, samt einfaldur og glæsilegur. Og hjólin voru risastór. Ég pantaði einn slíkan strax. Á þessum tíma gat ég bara ekið sjálfskiptum bílum en æfði mig á laun á að keyra beinskiptan bíl. Ég átti hann vel og lengi og lét sprauta hann purpurarauðan um skeið.“

Ástríða Claptons fyrir Ferrari-bílum brennur nú sem aldrei fyrr. Bílskúr hans er fullur af þeim og hann hefur átt marga um dagana sem komið hafa og farið. „Uppáhaldið er 250 GT Berlinetta Lusso. Ég hef átt hann í um 40 ár og dái hann, æðislegur bíll. Mest nota ég þó 612 Scaglietti, sem er sá stærsti í safninu. Ég á einnig 599 sem allir halda að sé betri, en ég tek 612-bílinn fram yfir, hann er frábær,“ segir Clapton. agas@mbl.is