Víkverji er ákafur talsmaður þess að fólk rétti hvert öðru hjálparhönd þegar á þarf að halda.

Víkverji er ákafur talsmaður þess að fólk rétti hvert öðru hjálparhönd þegar á þarf að halda. Skiptir þá litlu hvort um er að ræða kunnuga eða ókunnuga, öll getum við lent í því að þurfa á aðstoð að halda og enginn nálægur sem við þekkjum eða könnumst við. Þá er gott að nærstatt sé greiðvikið fólk.

Víkverji leitast þannig við að vera hjálpsamur og hefur alloft boðið fram aðstoð sína, ef útlit er fyrir að hennar sé þörf. Nokkuð reyndi á þennan eiginleika Víkverja á blíðum sólardegi í sundlaug nokkurri nú síðsumars. Víkverji hafði eytt lunganum úr deginum svamlandi um í ylvolgu vatninu á milli þess sem hann sólaði sig á bekk. Að lokum var kominn tími til að fara upp úr, í sturtu og síðan tóku við hefðbundin verk í slíkum aðstæðum eins og að þerra sig, klæða og snyrta.

Er þeim verkum var lokið og Víkverji hugðist yfirgefa búningsklefann vatt sér að honum roskinn sundlaugargestur og bað hann um að bera á sig krem á þeim stöðum líkamans sem hann náði ekki til sjálfur. Téður sundlaugargestur dró upp úr pússi sínu bauk af kremi sem á var letrað Body Butter, eða líkamssmjör og otaði að Víkverja. Vart þarf að geta þess að umræddur sundlaugargestur var kviknakinn.

Nokkurt fát kom á Víkverja, því þrátt fyrir greiðvikni sína og liðlegheit hefur hann aldrei áður verið beðinn um að smyrja nakinn búk ókunnugrar manneskju kremi. Víkverji mat stöðuna í skyndi og komst að þeirri niðurstöðu að heillavænlegast væri að verða við beiðninni, líklega hefði viðkomandi mikla þörf fyrir smurninguna. Þetta var líka ágætis leið fyrir Víkverja að losna við eilítið af þeim tepruskap sem hann hefur þróað með sér.

Víkverji fór að minnsta kosti talsvert út fyrir þægindahring sinn þennan dag.