VW Up er langvinsælasti bíllinn í Danmörku það sem af er ári.
VW Up er langvinsælasti bíllinn í Danmörku það sem af er ári.
Allt stefnir í að Danir kaupi fleiri nýja bíla í ár en nokkru sinni áður. Og það þótt lítils háttar samdráttur hafi orðið í nýliðnum júlí miðað við sama mánuð í fyrra. Enda þótt „aðeins“ 14.

Allt stefnir í að Danir kaupi fleiri nýja bíla í ár en nokkru sinni áður. Og það þótt lítils háttar samdráttur hafi orðið í nýliðnum júlí miðað við sama mánuð í fyrra.

Enda þótt „aðeins“ 14.319 Danir hafi eignast nýjan bíl í júlí er heildarsalan fyrstu sjö mánuði ársins það kröftug, að útlit þykir nú fyrir að metsalan frá í fyrra verði bætt í ár. Árið 2012 voru 170.804 nýir fólksbílar seldir í Danmörku. Fyrstu sjö mánuðina í ár hafa 106.285 bílar verið nýskráðir sem er rúmlega 5.000 bílum fleira en á sama tímabili í fyrra.

Mikil eftirspurn

„Í heildina talið er staðan á markaði góð, salan mikil og við verðum áfram varir við mikla eftirspurn. Því göngum við út frá því að áfram verði góður gangur í bílasölu,“ segir formaður samtaka bílainnflytjenda í Danmörku.

Bílasalar gleðjast yfir auknum fjölda seldra bíla en vandi þeirra er sá, að bróðurparturinn er litlir og örsmáir bílar sem gefa sölunum takmarkað í aðra hönd. Af 20 mest seldu bílamódelunum til júlíloka voru 18 í smábílaflokki og aðeins tvö módel, Volkswagen Golf og Skoda Octavia, af millistærð bíla.

VW Up er söluhæstur

Söluhæsta módelið er VW Up en af þessum bíl hafði 8.441 eintak verið selt um síðustu mánaðamót. Í öðru sæti er tékkneskur frændi hans, Skoda Citigo, með 3.975 eintök seld. Þriðji örsmái bíllinn úr VW-fjölskyldunni, hinn spænski Seat Mii, er í 20. sæti á listanum með 1.498 eintök og hafa því örbílar frá VW-samsteypunni selst í 13.914 eintökum fyrstu sjö mánuðina.

Þríburarnir Citroën C1, Peugeot 107 og Toyota Aygo sitja í 8., 9. og 4. sæti en í heildina nokkuð á eftir þríeykinu frá VW, eða 8.178 eintök seld. agas@mbl.is