Aðflug Þórsararnir Atli Jens Albertsson og Chukwudi Chijindu sækja að marki Fylkis eftir hornspyrnu. Fylkismaðurinn Agnar Bragi Magnússon til hægri.
Aðflug Þórsararnir Atli Jens Albertsson og Chukwudi Chijindu sækja að marki Fylkis eftir hornspyrnu. Fylkismaðurinn Agnar Bragi Magnússon til hægri. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Þórsvelli Andri Yrkill Valsson sport@mbl.

Á Þórsvelli

Andri Yrkill Valsson

sport@mbl.is

Hvorki Þórsarar né Fylkismenn komu sér frá þeirri hringiðu sem einkennir botnbaráttuna þetta árið eftir jafntefli norðan heiða, en Árbæingar hafa verið á miklum skriði undanfarið á meðan Þórsarar hafa ekki átt góðar vikur. Jafntefli vissulega sanngjörn niðurstaða, en bæði lið ætluðu sér sannarlega meira enda mikið hamrað á því hversu mikilvægt það er að vinna stig af liðunum í kring.

Hálfleikirnir kaflaskiptir

Leikurinn var sannarlega ekki í öllum regnbogans litum og var eiginlega bara tvískiptur í svart og hvítt; fjörugur fyrri hálfleikur á móti tíðindalausum seinni. Þrjú mörk á fimm mínútum glöddu augað en annars virtust leikmenn tregir til að sækja að ráði og hálfpartinn hræddir við að gera mistök, meðvitaðir um hvað mikið væri í húfi. Stór skörð voru í báðum liðum og voru Fylkismenn meðal annars án Ásgeirs Barkar Ásgeirssonar sem komið hefur eins og stormsveipur inn í liðið síðari hluta tímabilsins. Guy Eschmann tók hans stöðu í miðjumoðinu og lét sannarlega finna fyrir sér, svo mjög að honum var kippt af velli í hálfleik enda þá kominn á allra síðasta séns hjá Erlendi dómara.

Þórsarar voru í meiri erfiðleikum með að stoppa upp í sín göt og spilaði fyrirliðinn Sveinn Elías Jónson meðal annars í hægri bakverði, en hann er jafnan í fremstu víglínu. Hins vegar kom Jónas Björgvin Sigurbergsson inn í liðið og stóð sig virkilega vel á miðjunni. Þórsarar gagnrýndu dómgæsluna harðlega og fengu meðal annars báðir þjálfarar Þórs gult fyrir mótmæli eftir að Jóhann Helgi Hannesson fékk olnbogaskot í andlitið innan teigs, eða eins og hann orðaði það sjálfur við blaðamann eftir leik, „beint í grillið“.

Hvorugt liðið getur sofið rótt enda lúrir falldraugurinn við rúmstokkinn. Nú skiptir hvert einasta stig máli fyrir liðin í neðri hlutanum en það er ljóst og hefur verið lengi; baráttan verður með skemmtilegasta móti í ár.

Þór – Fylkir 2:2

Þórsöllur, Pepsi-deild karla, 16. umferð, mánudag 19. ágúst 2013.

Skilyrði : Sólarglæta en smágjóla að norðan. Völlurinn í góðu standi.

Skot : Þór 9 (7) – Fylkir 8 (5).

Horn : Þór 5 – Fylkir 1.

Lið Þórs : (4-3-3) Mark : Joshua Wicks. Vörn : Sveinn Elías Jónsson, Atli Jens Albertsson, Janez Vrenko (Hlynur Atli Magnússon 46.), Baldvin Ólafsson (Sigurður M. Kristjánsson 69.). Miðja : Edin Beslija, Jónas Björgvin Sigurbergsson, Ármann Pétur Ævarsson.. Sókn : Chukwudi Chijindu, Jóhann Þórhallsson (Jóhann Helgi Hannesson 74.), Mark Tubæk.

Lið Fylkis : (4-5-1) Mark : Bjarni Þórður Halldórsson. Vörn : Ásgeir Örn Arnþórsson, Kristján Hauksson, Agnar Bragi Magnússon, Tómas Þorsteinsson. Miðja : Davíð Einarsson (Hákon Ingi Jónsson 90.), Emil Berger, Finnur Ólafsson, Guy Eschmann (Pablo Dubon 46.), Elís Rafn Björnsson (Árni Freyr Guðnason 69.). Sókn : Viðar Örn Kjartansson

Dómari : Erlendur Eiríksson – 5.

Áhorfendur : 878.

1:0 Chukwudi Chijindu 16. fylgdi eftir skoti Jóhanns Þórhallssonar í þverslána.

1:1 Viðar Örn Kjartansson 18. slapp einn í gegn eftir langa sendingu fram völlinn.

1:2 Finnur Ólafsson 20. úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Tómasi Þorsteinssyni.

2:2 Mark Tubæk 43. upp úr engu með óvæntu skoti fyrir utan teig.

Gul spjöld:

Eschmann (Fylki) 5. (brot), Baldvin (Þór) 11. (hendi), Jóhann (Þór) 27. (Þór), Ármann Pétur (Þór) 37. (brot), Finnur (Fylki) 52. (brot), Páll Viðar (þjálfari Þórs) 78. (mótmæli), Halldór (þjálfari Þórs) 78. (mótmæli).

Rauð spjöld:

Engin.

M

Chukwudi Chijindu (Þór)

Joshua Wicks (Þór)

Jónas Björgvin Sigurbergsson (Þór)

Mark Tubæk (Þór)

Finnur Ólafsson (Fylki)

Tómas Þorsteinsson (Fylki)

Viðar Örn Kjartansson (Fylki)

Pablo Oshan Dubon (Fylki)