Magnús V. Ágústsson fæddist í Reykjavík 5. júlí 1924. Hann lést í Reykjavík 26. júlí 2013.

Foreldrar hans voru Ágúst Jósefsson vélstjóri, f. 1888, d. 1967, og Vigdís Jósefsdóttir húsfreyja, f. 1902, d. 1987. Magnús gekk í Verzlunarskólann að loknum barnaskóla og fór síðan til Kanada og Bandaríkjanna í flugnám. Eftir heimkomu vann hann hjá Svifflugfélagi Íslands, Flugfélaginu Vængjum og Flugfélaginu Þyti. Hann réðst síðan til starfa hjá Loftleiðum 1960 og starfaði þar sem flugmaður og síðan hjá Flugleiðum sem hleðslustjóri og afgreiðslustjóri á Keflavíkurflugvelli þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Eftirlifandi eiginkona Magnúsar er Halldóra Edda Jóhannsdóttir, f. 1934 í Reykjavík. Dætur Magnúsar og Halldóru Eddu eru 1) Ásdís, f. 1954, hennar börn eru Ágúst Róbert Glad, f. 1981 og Vigdís Marianne Glad, f. 1987, 2) Arndís, f. 1958, hennar börn eru Edda Vigdís Brynjólfsdóttir, f. 1987 og Brynjólfur Magnús Brynjólfsdóttir, f. 1990, og 3) Guðrún Dís, f. 1967, hennar dóttir er Bryndís Helga Traustadóttir, f. 1995.

Útför Magnúsar fór fram frá Garðakirkju 1. ágúst 2013.

Tengdapabbi minn fv. var höfðingi. Hann var ekki maður málamiðlana. Annaðhvort var hann með eða á móti. Hans orði gat ég alltaf treyst, hvort sem um var að ræða að við værum sammála eða ekki. Mér þótti og þykir enn óskaplega vænt um þig, kæri tengdapabbi og vinur. Við áttum oft í miklum ágreiningi sem hins vegar endaði alltaf í mjög góðu þar sem okkur tókst alltaf að lenda þeim málum sem okkur greindi á um, annaðhvort með því að við sáum hvor annars sjónarmið eða við ákváðum einfaldlega að vera ósammála. Hið síðarnefnda var oftar lendingin en við fórum ávallt sáttir frá þessum rökræðum okkar.

Magnús V. Ágústsson var magnaður maður. Hann vissi að mér fannst hann ótrúlega þrjóskur en að sama skapi vissi ég að honum fannst það sama um mig. Það er langt síðan við höfum átt góðar rökræður og við þessi tímamót sakna ég þeirra en góðar minningar geymi ég um mætan mann sem var ótrúlega ólíkur mér en samt svo ótrúlega líkur.

Magnús V. Ágústsson, kæri tengdapabbi. Þú hefur og átt alltaf stórt pláss í mínu hjarta. Ég kann að meta svo margt sem þú gerðir þó sérstaklega hvernig þú tókst á móti dótturdóttur þinni þegar hún kom heim frá Svíþjóð. Ég hlakka til að hitta þig á ný og takast á við þig um þau mál sem okkur greinir á um þarna hinum megin, hvar sem það nú er.

Kær kveðja.

Þinn vinur og fv. tengdasonur,

Trausti.

Ungir kynntumst við Magnús því við áttum systur að eiginkonum. Þau kynni stóðu meðan báðir lifðu, nú er eins og heimurinn hafi minnkað því hann tekur alltaf svip af umhverfi sínu hverju sinni.

Vegna starfa sinna var Maggi víðförull, hann heillaðist af bláma hafs og himins og af grænum gróðri jarðar. Hann var mikill sagnamaður sem við fjölskyldan nutum góðs af á góðum stundum. Að ógleymdum ferðalögum okkar Hafdísar með þeim hjónum innanlands sem erlendis. Vinátta okkar var traust, þó skoðanir okkar hafi ekki alltaf farið saman, en óhætt er að segja að við áttum hvor okkar sinn draum.

Nú hefur gáski okkar og hlátur horfið, þá gaf hinn mikli smiður mér minninguna um svila minn og samferðamann, það ber að þakka og sendi ég eftirlifandi eiginkonu hans, dætrum og barnabörnum hlýjar kveðjur mínar.

Víst er gott að vera hjá

vinasveit og grönnum.

Og kunna flestar átti á

allri byggð og mönnum.

(G.A.B.)

Einar Magnús

Guðmundsson.