Vinnsla Innanríkisráðuneytið fjallar nú um þær hælisumsóknir sem er áfrýjað.
Vinnsla Innanríkisráðuneytið fjallar nú um þær hælisumsóknir sem er áfrýjað. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Sérstök fagleg og óháð áfrýjunarnefnd sem fjallaði um umsóknir hælisleitenda og listi yfir örugg lönd eins og stuðst er við í Noregi eru á meðal þess sem er í skoðun hjá innanríkisráðuneytinu til þess að flýta fyrir meðferð á hælisumsóknum hér landi.

Málsmeðferðartími á umsóknum hælisleitenda hér á landi hefur verið gagnrýndur en hann hefur verið allt að níu til sextán mánuðir. Að sama skapi hefur kostnaðurinn við vinnslu umsóknanna aukist.

„Ég kynnti það fyrir ríkisstjórn í sumar að ég teldi að við þyrftum að fara vel yfir þann kostnað sem við berum af þjónustunni og hvort við gætum forgangsraðað betur svo við nýttum fjármagnið í þágu þeirra sem eru raunverulega taldir þurfa á pólitísku hæli að halda,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.

48 klukkustunda kerfi

Því hefur ráðuneytið undanfarið kynnt sér hvernig farið er með málefni hælisleitenda annars staðar. Niðurstaðan var sú að Norðmenn stæðu sig vel í að sinna skyldum sínum við hælisleitendur. Hanna Birna fór meðal annars til fundar við norska dómsmálaráðherrann fyrr í þessum mánuði. Þar séu umsóknirnar afgreiddar mun fyrr en hér.

„Þeir eru með kerfi sem kallast 48 klukkustunda kerfi sem gengur út á að umsóknir eru teknar til skoðunar eða hafnað út frá lista yfir örugg lönd. Þeir fá þá svar strax og það er talið miklu mannúðlegra gagnvart þessum einstaklingum og minni flækja í stjórnkerfinu við að afgreiða þær,“ segir ráðherrann.

Geta enn sótt um dvalarleyfi

Listinn yfir öruggu löndin er unninn í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og aðrar alþjóðastofnanir. Þar séu til dæmis Evrópulöndin og Bandaríkin talin örugg og að ekki þurfi að veita einstaklingum sem þaðan koma pólitískt hæli. Þeir sem komi frá þeim löndum fái synjun strax.

„Það breytir engu um að það fólk getur fengið miklu hraðari meðhöndlun hér ef það sækir um atvinnu- eða dvalarleyfi en það þarf ekki að njóta þeirrar sérstöðu sem það að vera pólitískur hælisleitandi felur í sér,“ segir hún.

Kynni hugmyndir í september

Auk þess skoðar ráðuneytið útfærslur á málsmeðferðinni til að draga úr aðkomu ráðuneytisins sjálfs að hælisumsóknum. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi tekur það fyrir áfrýjanir hælisleitenda sem Útlendingastofnun synjar um hæli. Í Noregi taki fagleg og óháð áfrýjunarnefnd slík mál fyrir.

Hanna Birna segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvaða útfærslur frá Noregi verði teknar inn í kerfið hér en verið sé að skoða það innan ráðuneytisins. Hún stefni á að kynna hugmyndir um nýjar leiðir í málefnum hælisleitenda í ríkisstjórn um miðjan september.

Kostnaður
» Aldrei hafa fleiri sótt um pólitískt hæli hér á landi en í fyrra en þá sóttu 115 um hæli. » Kostnaðurinn vegna þessa tvöfaldaðist á milli ára.
» Mesti kostnaðurinn er vegna þess hve langan tíma hefur tekið að afgreiða umsóknirnar.