Það er stundum haft á orði að það sem sé gefandi sé í réttu hlutfalli krefjandi. Það má til sanns vegar færa. Þegar kemur að fótbolta á slíkt sérstaklega við um okkur sem erum stuðningsmenn Liverpool.

Það er stundum haft á orði að það sem sé gefandi sé í réttu hlutfalli krefjandi. Það má til sanns vegar færa. Þegar kemur að fótbolta á slíkt sérstaklega við um okkur sem erum stuðningsmenn Liverpool. Tvennt kemur til; hin seinni ár (þá er átt við síðustu 23 ár) hefur enski meistaratitillinn gengið þessu forðum sigursæla liði ítrekað úr greipum, en aðrir titlar sem tínst hafa til um leið glatt okkur Púllara óumræðilega. Svo má líka snúa þessari pælingu upp á tímalínuna. Á meðan níundi áratugur síðustu aldar var einstaklega gefandi tímabil með 7 enskum meistaratitlum og 2 Evrópumeistaratitlum á árunum 1980 til 1990, hefur liðið ásamt stuðningsmönnum mátt búa við langvarandi eyðimerkurgöngu síðan þá og það getur verið krefjandi, jafnvel fyrir þolinmóðustu stuðningsmenn.

En hvers vegna að þráast við og styðja Rauða herinn frá Liverpool? Fyrir utan hið augljósa svar að enginn sæmilega heilsteyptur persónuleiki breytir um „sitt lið“ í enska boltanum, þá liggur svarið í því að þá sjaldan sem góðar stundir hafa gefist okkur stuðningsmönnum LFC upp á síðkastið hafa þær verið ógleymanlegar. Árið 2001 var gjöfult með einum fimm bikurum í allt – Worthington bikarinn svokallaði, FA bikarinn, UEFA bikarinn (Evrópudeildin í dag), Góðgerðarskjöldurinn í upphafi tímabilsins í kjölfarið og loks UEFA Super Cup. Ennfremur var um vorið ungur og slánalegur strákur að nafni Steven Gerrard valinn besti ungi leikmaður deildarinnar. Þá var gaman, þó hvorugur stóru bikaranna væri þar á meðal. Svo var það kvöld eitt í Istanbul, í maí 2005, að Liverpool landaði sjálfum Evrópumeistaratitlinum eftir úrslitaleik gegn ítalska stórveldinu AC Milan, leik sem er löngu orðinn að goðsögn. Það er óþarfi að tíunda framvindu þess leiks hér, hann er á við bestu bíómynd hvað spennu og dramatíska uppbyggingu varðar, enda yljaði hann sigurþyrstum stuðningsmönnum Liverpool ærlega. Og þannig gengur það – sagan heldur okkur við efnið og huggar þegar á bátinn gefur. En eins og svo oft áður langar okkur að trúa því að nú sé runnið upp tímabilið þegar vindátt snýst okkur í vil. Ungur þjálfari, Brendan Rodgers, er við stjórnvölinn, maður sem kann skil á knattspyrnu sem gaman er að horfa á. Aldnir stuðningsmenn þykjast heyra í orðum hans bergmál fyrri tíma þegar kempur á borð við Bill Shankly og Bob Paisley börðu í brestina, brýndu til afreka og stýrðu liðum sínum til ótal glæstra sigra. Það skyldi þó aldrei verða að í náinni framtíð verði nafn Rodgers nefnt á sama tíma og framangreindra? Vonin er alltént til staðar og þó líf vort hafi að þessu leyti verið púl á stundum síðustu tvo áratugina þá brennur sem fyrr hinn rauði eldur í æðum. Því Liverpool er lífstíll sem er jafn gefandi og hann er krefjandi. Eins og þar stendur – enginn sagði að það væri auðvelt – bara að það væri þess virði.

Megir þú, lesandi góður, aldrei ganga einsamall.

Jón Agnar Ólason

Höf.: Jón Agnar Ólason