Gunnlaugur Karl Stefánsson fæddist í Reykjavík 5. febrúar 1943. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 8. ágúst 2013. Hann var sonur hjónanna Huldu Andrésdóttur, f. 27. febrúar 1915, d. 13. október 1975, og Stefáns Þórarins Gunnlaugssonar, f. 17. ágúst 1918, d. 7. september 1999. Systkini Gunnlaugs eru: Björg Lilja, f. 1. maí 1939, en hennar maður var Halldór Runólfsson, d. 9. apríl 1988, Sigurður, f. 11. desember 1944, kvæntur Auði Konráðsdóttur, Sigríður, f. 6. júlí 1952, hennar maður er Guðmundur Guðmundsson, og Snæbjörn, f. 18. nóvember 1954, kvæntur Önnu S. Helgadóttur.

Gunnlaugur bjó fyrstu ár ævi sinnar á Skúlagötu í Reykjavík, eða þangað til foreldrar hans byggðu hús fyrir fjölskylduna á Sogavegi. Hann vann ýmis störf um ævina en lengst af starfaði hann sem kokkur og þjónn, bæði til sjós og lands. Þegar hann hætti til sjós lagði hann fyrir sig antiksölu í Kolaportinu við góðan orðstír og allir þekktu Gulla í Koló. Gulli lét draum sinn rætast og hefur undanfarin níu ár búið í Taílandi. Gunnlaugur var ókvæntur og barnlaus.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 20. ágúst 2013, og hefst athöfnin kl. 15.

Nú er hann Gulli bróðir dáinn, og við sem þekktum hann erum viss um að hann sé kominn í einhvers konar paradís með mömmu, þar sem þau gróðursetja blóm saman og búa til fallegan garð.

Gulli bróðir minn var yndislegur maður og það þótti öllum sem honum kynntust vænt um hann.

Alltaf var hann hrókur alls fagnaðar og ég tala nú ekki um allar veislurnar sem hann skellti upp með annarri hendinni. Gulli bróðir var mikill lífskúnstner, kunni að meta allt sem fallegt var og hafði mikið af fallegum hlutum í kringum sig. Það var yfirleitt mjög gestkvæmt heima hjá honum og hann hafði mikið gaman af því að vera innan um fólk og sérstaklega fannst honum gaman að stjana í kringum alla sem til hans komu. Hann var frábær þegar hann var með básinn í Kolaportinu, alltaf uppáklæddur í kjól og hvítt, gekk þar um eins og hann ætti heiminn. Þar voru allir svo góðir við hann og hann eignaðist mikið að góðum vinum þar. Hann er mér mjög minnisstæður vegna hversu góður hann var alltaf við mömmu og allar konurnar á Sogaveginum sem bjuggu nálægt okkur. Hann útbjó mínar afmælisveislur þegar ég var lítil og veislurnar haldnar út í garði og Gulli sá um að allir hefðu nóg að borða og drekka, meira að segja þeir sem gengu fram hjá og voru ekki í afmælinu fengu líka, en þetta var hann og hann tók ekki í mál að skilja einhvern útundan. Elsku Gulli minn, mikið er ég fegin að þú skyldir koma hingað heim þannig að við gætum hitt þig áður en þú fórst í sumarlandið eins og þú kallaðir það. Ég vona að algóður Guð sé með þér núna ásamt mömmu og pabba. Það er mikill missir að þér, Gulli minn, og ég vona að við tökum þig til fyrirmyndar og verðum góð við hvort annað.

Er völlur grær og vetur flýr

og vermir sólin grund

kem ég heim og hitti þig.

Verð hjá þér alla stund.

Við byggjum saman bæ í sveit

sem blasir móti sól.

Þar ungu lífi landið mitt

mun ljá og veita skjól.

Sól slær sifri á voga

sjáðu jökulinn loga.

Allt er bjart fyrir okkur tveim

því ég er kominn heim.

Að ferðalokum finn ég þig

sem mér fagnar höndum tveim

Ég er kominn heim

já ég er kominn heim.

(Jón Sigurðsson)

Sigríður (Sigga) systir.

Nú er hann Gulli vinur minn farinn yfir móðuna miklu og hefur kvatt Taíland og blómin sín þar.

Ég kynntist Gulla fyrst fyrir mörgum áratugum síðan, þá var hann þjónn á Langabar og síðan höfum við svona vitað hver af öðrum, sagt halló á förnum vegi og einnig í Kolaportinu en þar var hann með sölubás í mörg ár.

Góð vinátta okkar Gulla kom einhvern veginn af sjálfu sér eftir að hann settist að í Pattaya og ég fór að venja komur mínar til hans í morgunkaffi á þeim tímum sem ég var í fríi þar. Það var alltaf gaman að kíkja til hans, fá góðan kaffisopa, svæla nokkrar Krontip, kíkja á blómin og skrafa um þau og liðna tíð í Reykjavík enda Gulli margfróður um menn og málefni en aldrei heyrði ég Gulla leggja nokkrum manni illt til í þessum samræðum.

Þessi ár Gulla í Taílandi voru honum góð, honum leið vel í hitanum og sólinni, ekki skemmdu markaðir og sölubásar fyrir ánægjunni, hann var alltaf að sjá eitthvað sem mátti kaupa fyrir lítinn pening og sá síðan sölumöguleika á sama hlut í Kolaportinu. Mesta ánægju hafði hann af blómunum sínum, margur dagurinn fór í að umpotta og taka afleggjara og koma þeim til, vökva og spjalla við blómin enda umönnunarþörfin mikil í breyskjuhitum Taílands.

Það sýndi sig best í Taílandi hvaða ágætismann Gulli hafði að geyma, hálf-mállaus á erlendar tungur og algerlega á tungu innfæddra þá gat hann alltaf bjargað sér og náð vináttu allra sem hann umgekkst. Allir voru fúsir til að hjálpa honum og greiða götu hans enda mat hann innfædda mikils og þeir hann ekki síður.

Í vetur leið þegar ég hitti hann var hann farinn að kvarta undan verkjum eða gigt í skrokknum og ræddum við vinir hans um það að eitthvað væri nú að, en hann var nú samt kátur og gat farið með okkur vinunum Einari Erni og Pongsa um allar trissur en við sáum að eitthvað var að. Um það bil mánuði seinna átti Einar Örn aftur leið til Taílands og þá sá hann að Gulla hafði hrakað og dreif hann í því að Gulli kæmist heim. Er heim kom fór Gulli beint á sjúkrahús og dvaldi hann þar þessar síðustu vikur uns yfir lauk, í góðri umönnun starfsfólks Borgarspítalans og umvafinn gæsku ættingja og vina.

Nú þegar komið er að leiðarlokum, þá vil ég þakka Gulla fyrir góðar stundir og vináttu með orðum skáldsins Kristjáns Jónssonar:

„Því þeir sem hér í heimi skilja, hittast aftur á betri tíð.“

Kristján.

Síst vil ég tala um svefn við þig.

Þreyttum anda er þægt að blunda

og þannig bíða sælli funda –

það kemur ekki mál við mig.

(Jónas Hallgrímsson.)

Gulli vinur minn hefur sofnað svefninum langa. Mér þótti vænt um að geta setið hjá honum síðustu nóttina. Það var öllum ljóst að stundin var nærri. Og hann sjálfur var tilbúinn í ferðalagið sem bíður okkar allra.

Vinátta okkar Gulla bast sterkum böndum í Taílandi. Landinu sem við báðir unnum. Ég og Pong, sem er eiginmaður minn, reynum að verja sem mestum tíma í húsinu okkar í Pattaya. Varð Gulli strax fastur punktur í tilveru okkar þar.

Það má segja að í Taílandi hafi Gulli fundið fjölina sína. Þar undi hann í sínum reit í ró. Hann var virtur og samþykktur í samfélaginu þar. Gaman var að heyra þegar við vorum á leið í leiðangra okkar á mótorhjólinu og Gulli sat aftan við annan hvorn okkar. Kallað var góðan daginn eða sælar á íslensku af götusölufólkinu á horninu. Sama fólk kom að máli við mig í vor og hafði áhyggjur af heilsufari hans sem fór hrakandi.

Hann bjó vel um sig í raðhúsinu sínu. Umvafinn blómum sem hann ræktaði af ástúð. Hann hafði lífið í föstum skorðum. Vinnan við blómaræktunina var skipulögð og sálin lögð í hlutina. Hann var snyrtimenni og bar fallega heimilið hans honum fagurt vitni. Hann sagði sjálfur að í Taílandi væri hann að lifa bestu ár ævi sinnar. Hann var edrú síðustu árin og hafið sigur yfir Bakkusi þar til yfir lauk. Edrúmennskuna áttum við sameiginlega og var oft rætt um edrúlíf okkar sem báðir mátu mikils. Alveg fram til hins síðasta hugsaði hann um edrúmennskuna sína. Talaði um að ef sér batnaði myndi hann skella sér á Vog eftir öll lyfin.

Gulli var góðmenni, hreinskiptinn og lagði aldrei illt til nokkurs manns. Hann talaði vel um fólk og sá hið góða í því. Sumir notfærðu sér það og nýttu sér gjafmildi hans og gæsku. Gulli var fljótur að fyrirgefa þeim. Það var létt að lynda við Gulla. Tengdaforeldrar mínir og Gulli náðu vel saman með blandi af líkamstjáningu og tungumáli sem á engan sinn líka. Hlátrarsköllin og brosin voru einlæg og sönn. Ber ég hinstu kveðju tengdaforeldra minna til Gulla.

Hann kvaddi í upphafi Hinsegin daga. Hann stóð alltaf með sjálfum sér og lifði sínu lífi stoltur alla tíð. Vafðist aldrei fyrir honum hver hann var. Samfélagið var ekki jafn umburðarlynt á hans yngri árum og það er blessunarlega í dag. Það mótaði hann sterkt. En hann valdi brosið fram yfir beiskjuna. Framfarirnar í baráttu hinsegin fólks voru honum gleðiefni.

Taíland, landið okkar, verður ekki samt við fráfall hans. Svo fastur punktur var hann í tilveru margra þar. Hans verður saknað. Við Pong sendum systkinum hans og fjölskyldum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Gulla. Takk fyrir allt, vinur minn.

Ég hóf þessi minningarorð með erindi eftir Jónas Hallgrímsson. Seinni hlutinn hljóðar svo:

Flýt þér, vinur, í fegri heim.

Krjúptu að fótum friðarboðans

og fljúgðu á vængjum morgunroðans

meira að starfa guðs um geim.

Einar Örn Einarsson.