Grágæsir Fjölgað hefur í gæsastofnunum hér á landi síðustu ár.
Grágæsir Fjölgað hefur í gæsastofnunum hér á landi síðustu ár. — Morgunblaðið/Ómar
„Það má segja að þetta hafi komið vel út, sérstaklega með heiðagæsina. Það voru taldir 360.

„Það má segja að þetta hafi komið vel út, sérstaklega með heiðagæsina. Það voru taldir 360.000 fuglar, sem er það næstmesta sem hefur verið talið frá upphafi,“ segir Arnór Þórir Sigfússon, fuglafræðingur á verkfræðistofunni Verkís, spurður út í gæsatalninguna. Gæsaveiðitímabilið hófst á miðnætti.

Arnór segir í samtali við mbl.is að heiðagæsirnar hafi aðeins verið 33.000 talsins þegar talningarnar hófust árið 1950. „Það má segja að þetta hafi verið stöðug uppleið.“ Haustið 2011 hafi verið taldar 250.000 heiðagæsir en að öllum líkindum hafi verið um talningarskekkju að ræða.

Þá segir Arnór að grágæsin sé á svipuðu róli og hún hafi verið undanfarin ár en þær voru um 105.000 talsins í síðustu talningu. Það séu örlítið færri fuglar en í talningunni haustið 2011. Það sé hins vegar ekkert til að hafa áhyggjur af því grágæsin stefni einnig upp á við.

Vorið 2013 var helsingjastofninn talinn, þriðja gæsategundin sem má veiða, en fuglarnir eru taldir á fimm ára fresti.

„Það hafði orðið talsverð aukning þar. Helsinginn er kominn upp í rúmlega 80.000 fugla. Það er tæp 15% aukning á síðustu fimm árum,“ segir Arnór.

Árleg talning

Talningar á heiða- og grágæsum fara fram árlega á haustin. Þeim er stýrt af samtökum í Bretlandi sem heita Wildfowl & Wetland Trust. Náttúrufræðistofnun Íslands, auk Verkís, hefur tekið þátt í talningunni.

Undanfarin tuttugu ár hefur Arnór einnig fylgst með hlutfalli unga í veiðinni með því að safna vængjum frá veiðimönnum. Hann segir að besta varp sem hann hafi séð hjá heiðagæs hafi verið á síðasta ári.

jonpetur@mbl.is